Líklegt að Birna hafi drukknað í sjó

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líklegt er að andlát Birnu Brjánsdóttur hafi borið að þannig að hún hafi drukknað í söltu vatni. Þetta kom fram í máli dr. Mario Darok,  réttarmeinafræðings við réttarmeinastofnunina í Graz í Austurríki, sem er annar á lista yfir þá sem bera vitni í sakamáli S-127/2017, máli ákæruvaldsins gegn Thomasi Fredrik Møller Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn. Túlkur þýðir vitnisburð Daroks af þýsku.

Þinghald fer fram í Héraðsdómi Reykjaness og búist er við því að vitnaleiðslur standi eitthvað fram yfir hádegi, en eftir það verður munnlegur málflutningur. Sakborningurinn Olsen er ekki viðstaddur vitnaleiðslur.

Alls munu átta bera vitni í dag, auk réttarmeinafræðinsins Sebastian Kunz, sem var fyrstur á vitnalista og bar vitni fyrir luktum dyrum og Daroks, eru þar Sigurður Páll Pálssoin geðlæknir, Grímur Grímsson, sem fór með stjórn rannsóknar á málinu, og Bragi Ísleifur Gunnarsson.

Þá munu Niels J. Heinesen og Ove Heilman Petersen sem eru fyrrverandi skipverjar af Polar Nanoq, bera vitni símleiðis. Þá mun María Erla Káradóttir, starfsmaður á The English Pub sem var að störfum aðfaranótt 14. janúar þegar Thomas var á staðnum, bera vitni.

Spurði um þörunga

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssasksóknari sagðist eingöngu hafa eina spurningu til Daroks. Hún spurði um kísilþörunga sem greindust í sýnum úr lungum Birnu og hvar slíka þörunga væri að finna í sjónum í grennd við staðinn þar sem lík hennar fannst.  „Fannst þú slíka þörunga og hvaða ályktun myndirðu draga af rannsókn þinni?“ spurði Kolbrún.

Í svari túlksins, sem þýddi svör Daroks, kom fram að þörungar hefðu greinst við ós árinnar. „Hátt hlutfall þörunga var í vatnssýninu sem tekið var í firðinum fyrir utan. Í sjónum, var minna um þessa þörunga.“

Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness.
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Hanna

Í vefsýnum, sem Darok voru send til rannsóknar, fundust engir kísilþörungar. „Þetta getur átt sér ýmsar ástæður, t.d. þegar um drukknun er að ræða getur tímalengd drukkunarferlisins skipt máli,“ hafði túlkurinn eftir Darok. „Ef ferlið tekur hratt yfir og ef það gerist í sjónum þar sem þéttleiki þörunganna er lítið, þá getur það skýrt að drukknunin hafi tekið skamma stund.“

„Þegar um er að ræða, eins og í þessu tilviki, manneskju sem er með alvarlega áverka, jafnvel meðvitundarlaus þegar hún kemur í vatnið, getur það leitt til hraðs andláts,“ sagði Darok.

Niðurstöður benda til drukknunar í söltu vatni

Verjandinn, Páll Rúnar M. Kristjánsson, spurði:  „Gastu dregið af þessu niðurstöðu, hvort hún hefði drukknað á svæði þar sem þéttleiki þörunga var mikill eða lítill?“

„Í þessu tilviki er helst hægt að draga ályktanir út frá niðurstöðum krufningarinnar. Gangi maður út frá því að dánarorsök hafi verið drukknun benda niðurstöður frekar til þess að hún hafi orðið í söltu vatn heldur en í ósöltu,“ þýddi túlkurinn eftir Darok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert