Segir handtökuna hafa verið ólöglega

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar Møllers Olsen.
Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar Møllers Olsen. mbl.is/Ófeigur

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar Fredrik Møller Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn, krefst sýknu af báðum ákæruliðum sem umbjóðandi hans er sakaður um. Hann segir margt í gögnum málsins styðja þessa kröfu og segir  að eftir að Møller Olsen var handtekinn hafi aðrir möguleikar ekki verið rannsakaðir að fullu.

Nú fer fram munnlegur málflutningur í máli ákæruvaldsins gegn Møller Olsen og hefur Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, farið fram á að honum verði gerð a.m.k. 18 ára fangelsisrefsing fyrir manndráp og vörslu fíkniefna

Verjandi krefst sýknu af báðum ákæruliðum og að allur sakarkostnaður verði greiddur af ríkissjóði. Verði það ekki niðurstaðan er gerð krafa um vægustu refsingu sem lög leyfa.

Páll  sagði að ákærði teldi handtöku sína ólögmæta. Hann var handtekinn 18. janúar af sérsveitarmönnum 90 sjómílur suðvestur af Íslandi, innan íslenskrar efnahagslögsögu. Að mati ákærða fólu þessar aðgerðir í sér brot á þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og hann telur þær brjóta í bága við mannréttindasáttmála SÞ, að því er fram kom í máli Páls.

„Íslensk löggæsluyfirvöld höfðu engar lagalegar heimildir til þessara aðgerða,“ sagði Páll  og að engin skrifleg heimild hefði verið fyrir þessari aðgerð. Handtakan og gæsluvarðhaldið sem á eftir fylgdi bryti gegn lögum.  „Í samanteknu máli er þetta ólögmætt,  brot á alþjóðlegum skuldbindingum. Það er dómsins að meta hvaða áhrif þetta hefur á ákvörðun,“ sagði Páll og sagði að þessar aðfarir væru til þess fallnar að ómerkja málflutninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert