Segir sannanir skorta gegn Olsen

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi.
Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari og Páll Rúnar M. Kristjánsson verjandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Thomas Fredrik  Møller Olsen er viðkvæmur, handtakan var honum þungbær og ástæða reikuls framburðar hans er ölvun og hræðsla. Allt of mörgum spurningum er ósvarað í málflutningi ákæruvaldsins. Þetta sagði Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Olsen sem ákærður er fyr­ir að hafa banað Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar síðastliðinn.

Hann krefst sýknu af báðum ákæruliðum sem umbjóðandi hans er sakaður um.

Munnlegum málflutningi í máli ákæruvaldsins gegn Møller Olsen er nú lokið. Þar fór Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari,  fram á að honum verði gerð a.m.k. 18 ára fangelsisrefsing fyrir manndráp og vörslu fíkniefna

Verjandi krafðist sýknu af báðum ákæruliðum og að allur sakarkostnaður verði greiddur af ríkissjóði. Verði það ekki niðurstaðan er gerð krafa um vægustu refsingu sem lög leyfa.

Páll fór yfir athafnir skjólstæðings síns föstudagskvöldið 13. janúar og aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. „Var svo komið að ákærði var töluvert ölvaður og minnislítill um það sem fram fór þetta kvöld,“ sagði Páll.

Hann rakti frásögn Thomasar frá því í síðustu viku þar sem hann sagði að Nikolaj hefði skilið sig eftir við golfskálann í Garðabæ og ekið á brott með stúlku, sem var með þeim í bílnum, og endurtók í stuttu máli framburð sakbornings um athafnir hans þessa nótt og fram eftir degi laugardaginn 14. janúar.

„Ljóst er að þessi handtaka var honum mjög þungbær, honum var ljóst að upp kæmist að hann væri með verulegt magn fíkniefna um borð. Lögreglumenn síga niður í þyrlu, handtaka hann úti á rúmsjó, hann var handtekinn við komuna til landsins, eltur af fjölmiðlamönnum á lögreglustöð þar sem hann var yfirheyrður og skellt í kaldan fangaklefa sagði Páll.

Hann sagði að skjólstæðingur sinn hefði að mestu hætt að svara spurningum í yfirheyrslum frá 22. janúar, hann hefði setið í einangrun næstu vikurnar sem hafði mikil neikvæð áhrif á líðan hans.

Glæpur af verstu gerð

Páll ræddi atburði hina örlagaríku nótt.

„Þetta var glæpur af verstu gerð. Birna hafði sér ekkert til saka unnið og hafði ekkert rangt gert. Foreldrar hennar voru rændir barni sínu, bróðir hennar rændur systur sinni. Við vorum öll rænd sakleysi. Framhjá þessu er ekki hægt að horfa. Þetta var harmleikur. En þetta var líka tækifæri til að sýna úr hverju við erum gerð. Sýna hluttekningu. En tilfinningar báru staðreyndir ofurliði. Það er ljóst að snemma í þessari rannsókn barst grunur að ákærða og lítið gert til að rannsaka aðra möguleika.“

Páll sagði að Olsen hefði verið ákærður snemma í ferlinu þrátt fyrir að ákveðnar hliðar þessa máls hefðu ekki verið rannsakaðar að fullu. Í því samhengi gagnrýndi Páll að lögregla hefði ekki rannsakað þau símtöl sem Thomas átti á laugardagsmorguninn, þ.á.m. við skipverja nokkurn af Polar Nanoq. Sá hefði einnig hefði verið leiddur fram sem vitni, en ekki hefði komið fram að sá var mikill vinur Nikolajs.

Páll vísaði í skýrslur lögreglu þar sem haft er eftir skipverjanum að hann hefði sagt: „Ég á eitthvað sem ég þarf að segja.“

„Það er erfitt að átta sig á því hvað viðkomandi er í rauninni að segja,“ sagði Páll „Þetta er atriði sem hefði átt að spyrja út í frekar. Nú finnst þessi aðili ekki og ljóst að hann mun ekki gefa skýrslu hér fyrir dómi. Símtöl sem eiga sér stað á örlagaríkum augnabilum í sakamálum hafa haft úrslitaáhrif á útkomu mála.“

Telur handtöku sína ólögmæta

Páll  sagði að ákærði teldi handtöku sína ólögmæta. Hann var handtekinn 18. janúar af sérsveitarmönnum 90 sjómílur suðvestur af Íslandi, innan íslenskrar efnahagslögsögu. Að mati ákærða fólu þessar aðgerðir í sér brot á þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og hann telur þær brjóta í bága við mannréttindasáttmála SÞ. „Íslensk löggæsluyfirvöld höfðu engar lagalegar heimildir til þessara aðgerða,“ sagði Páll og sagði að engin skrifleg heimild hefði verið fyrir þessari aðgerð.

Í samanteknu máli væri bæði handtakan og gæsluvarðhaldið ólögmætar aðgerðir og brot á alþjóðlegum skuldbindingum. Þessar aðgerðir væru til þess fallnar að ómerkja málflutninginn.

„Ákærði telur að grundvallarforsendur séu rangar,“ sagði Páll. Annars vegar væri um að ræða skort á sönnunargögnum og hins vegar hefði það verið látið hjá því líða að útiloka það sem ómögulegt væri.

Ákæruvaldið verður að sanna hvert atriði

Hann velti upp spurningum um hvernig Thomas hefði átt að geta farið með Birnu á þær slóðir þar sem talið er að henni hafi verið komið í sjónn, þar sem hann væri tiltölulega ókunnugur hér á landi. „Ákæruvaldið verður að sanna hvert það atriði sem varðar sekt ákærða,“ sagði Páll.

Hann nefndi mögulega annmarka á því sem talið er að hafi gerst þessa nótt. Meðal annars sagði hann að blóðferlarannókn benti ekki til sektar Olsens. Það sama mætti segja um upptökur úr eftirlitsmyndavél. Þá væri niðurstaða þriggja erlendra fingrafarasérfræðinga um að fingrafar Olsens hefði fundist á ökuskírteinu Birnu um borð í Polar Nanoq ekki óyggjandi og þó að þetta væri fingrafar Olsens væri það engin staðfesting á sekt hans í þessu máli. Þá væri það, að þau föt sem Olsen hefði verið í um kvöldið, hefðu ekki fundist ekki vísbending um sekt hans og það sama gilti um klórför sem voru á líkama hans þegar hann var handtekinn. Alþekkt væri að fólk klóraði sig í svefni og Olsen væri einn þeirra.

Á köflum lítið að græða á framburðinum

„Það er ekki hægt að fjalla um þetta mál án þess að fjalla um framburð ákærða. Það er ljóst að það er á köflum ekki mikið á honum að græða, enda ber hann við miklu minnisleysi,“ sagði Páll og sagði að þetta væri vegna mikillar ölvunar Olsens þetta kvöld.

Páll sagði að það, að Olsen hefði ekki varpað fíkniefnunum fyrir borð, benti til þess að hann væri tilbúinn til að horfast í augu við gerðir sínar og að hann væri ekki óheiðarlegur. Ástæðan fyrir reikulum framburði hans væri ölvun og hræðsla.

Segir lögreglu hafa beitt harðræði og fautaskap

„Lögregla sagði hann sekan, því fylgir samkvæmt honum harðræði og fautaskapur. Hann segist hafa verið niðurlægður af lögreglu.“

Páll sagði menningarmun spila þarna inn í.  „Grænlendingar forðast árekstra og gefa frekar undan en að lenda í árekstri. Það framkallaði röng svör við leiðandi spurningum. Ákærði gat ekki á neinum tímapunkti hugsað sér að játa það í yfirheyrslum sem hann hafði ekki gert,“ sagði Páll. „Hann er ekki sérstaklega harðgerður einstaklingur, hann er viðkvæmur og á þeim tíma sem hann hefur verið í gæsluvarðhaldi hefur hann fallið í kvíða og sorg,“ sagði Páll og bætti við að Olsen hefði ekki á neinum tímapunkti sýnt hegðun sem benti til ofbeldishneigðar. „Við blasir að sýkna verður ákærða af ákærulið númer 1,“ sagði Páll.

Mekanísk þvingun

Hér skortir ásetning, sagði Páll um ákærulið númer 2 sem snýr að smygli og vörslu fíkniefna. Hann sagði Olsen hafa verið færðan nauðugan til Íslands, samkvæmt fyrirmælum íslenskra yfirvalda. Við það að skipið hafi komið inn í lögsögu Íslands hafi brotið fullframist. Ómöguleiki hafi því ráðið því að hann kom til landsins með fíkniefnin.

„Uppi er fullkomin og mekanísk þvingun sem á sér stað og tíma þar sem fullframningastigi hefur ekki verið náð, en veldur því að svo verði,“ sagði Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert