Varnarmálaskrifstofa verði endurreist

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnir skýrsluna á blaðamannafundi.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnir skýrsluna á blaðamannafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meðal þess sem lagt er til í nýrri skýrslu um framtíð utanríkisþjónustunnar sem unnin hefur verið í utanríkisráðuneytinu og kynnt var í dag er að stofnuð verði á nýjan leik sérstök varnamálaskrifstofa sem friðargæslan heyri meðal annars undir. Ennfremur verði aukin áhersla lögð á gerð fríverslunarsamninga og stofnað útflutnings- og markaðssráð.

Skýrslan er viðamesta úttekt sem gerð hefur verið á störfum utanríkisþjónustunnar en síðast var slík úttekt gerð árið 1998. Vinna við skýrsluna hófst fyrr á þessu ári og var hún sett af stað af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Finna má í skýrslunni, sem telur 86 blaðsíður, samtals 151 tillögur að því hvernig megi bæta og efla utanríkisþjónustuna.

Þegar kemur að öryggis- og varnarmálum er ennfremur lagt til að hvatt verði til gerðar á nýju áhættumati fyrir Ísland á vettvangi þjóðaröryggisráðsins og til reglulegra viðbragðsæfinga ráðsins. Gerð verði sömuleiðis aðgerðaáætlun í öryggis- og varnarmálum. Meðal annars um framlög og forgangsröðun Íslands varðandi eigin varnarviðbúnað.

Þar verði sérstaklega verði tekið mið af yfirlýsingum leiðtoga- og ráðherrafunda NATO og þeirra skuldbindinga sem af þeim leiða sem og þróun tvíhliða varnarsamstarfs við Bandaríkin. Skoðuð verði hugsanleg aukin þáttöku fulltrúa Landhelgisgæslunnar og Ríkislögreglustjóra í fundum sérfræðinga á vegum NATO sem varða verksvið þessara stofnana.

Evrópureglur verði sem minnst íþyngjandi

Hvað fríverslunarmála varðar verði sérstaklega kannaðir möguleikar á að ná bættum viðskiptakjörum í Bandaríkjunum og að endurskoðun fríverslunarsamnings við Kanada verði hraðað. Útflutnings- og markaðsráð verði stofnað og skipað fulltrúum stjórnvalda, atvinnulífs og launþegahreyfingar og leggi af mörkum til mótunar á utanríkisviðskiptastefnu Íslands.

Viðskiptaþjónusta verði betur kynnt og efld með þjónustu við atvinnulífið á erlendum mörkuðum. Meðal annars með fjölgun viðskiptafulltrúa. Fyrst í Norður-Ameríku og Asíu. Möguleikar á samstarfi við til dæmis hin Norðurlöndin í sókn á erlendum mörkuðum verði betur nýttir. Þá ekki síst í viðskiptaþróun og beitingu og eflingu orðspors þessa ríkjahóps.

Þegar kemur að EES-samningnum verði unnið að innleiðingu reglna frá Evrópusambandinu þannig að þær verði sem minnst íþyngjandi fyrir íslenska hagsmunaaðila. Komið verði á fót gátt á vef utanríkisráðuneytisins þar sem almenningur og hagsmunaaðilar geta sent inn ábendingar um það sem betur mætti fara við innleiðingu slíkra gerða.

Samráð við Alþingi um framkvæmd EES-samningsins verði aukið og utanríkisráðherra kynni árlega í utanríkismálanefnd lista yfir forgangsmál Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Ráðherra flytji tvisvar á ári munnlega greinargerð í þingsal um það sem efst er á baugi í sambandinu og varðandi EES-samninginn. Þá verði regluleg upplýsingamiðlun til Alþingis aukin.

Stofnað rannsóknarsetur um utanríkismál

Lagt er til að að stofnað verði rannsóknarsetur um utanríkis- og öryggismál hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands með það að markmiði að efla fræðslu og upplýsingamiðlun um þessi mál. Kannað verði hvort að fyrirlestrar, erindi og kynningar um utanríkis- og öryggismál, sem reglulega eru flutt í utanríkisráðuneytinu geti að einhverju leyti verið opnir almenningi.

Einnig er lagt til að gerð verði þarfagreining á hugsanlegri fjölgun sendiskrifstofa á komandi árum. Sett verði það markmið að að minnsta kosti einn starfsmaður utanríkisráðuneytisins fari á hverju ári í tímabundna starfstilfærslu annað hvort til ráðuneytis annars ríkis eða alþjóðastofnunar fyrir utan verkefni innan þróunarsamvinnu eða í tengslum við friðargæslu.

Fylgst verði kerfisbundið með auglýsingum um lausar stöður í alþjóðlegum og fjölþjóðlegum samtökum og stofnunum og þær auglýstar á Íslandi með það fyrir augum að hvetja til umsókna hæfra Íslendinga. Farið verði með skipulögðum hætti yfir stærð, rekstrarkostnað og nýtingu húsnæðis í eigu eða leigu ríkisins erlendis með áframhaldandi hagræðingu í huga.

Lokið verði vinnu við að setja skýr viðmið um framgang starfsmanna í utanríkisþjónustunni. Gerð verði ennfremur áætlun um stigvaxandi fjölgun starfsnema í utanríkisráðuneytinu og á sendiskrifstofum og stuðlað að meiri notkun snjalltækja í utanríkisþjónustunni, fartölvum fjölgað á sendiskrifstofum og fjarfundarbúnaði komið upp í þeim öllum.

Dagskrá ráðherra aðgengileg almenningi

Ennfremur er lagt til að mótuð verði upplýsingastefna utanríkisþjónustunnar. Hætt verði alfarið að senda prentað kynningarefni til sendiskrifstofa og slíkt efni verði í þess stað aðgengilegt á netinu. Sem mest verði dregið út notkun á tölvupósti innanhúss. Ráðuneytið marki sér stefnu til að nýta betur tækni og rafræna þjónustu til að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri.

Sömuleiðis verði gerð áætlun um nýtingu á formennsku Íslands í alþjóðlegum og fjölþjóðlegum samtökum og stofnunum til almennrar landkynningar og kynningar á stefnu og hagsmunum Íslands í utanríkismálum. Þá verði dagskrá utanríkisráðherra opin almenningi eins og kostur er.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert