Ríkisendurskoðun skoði mál United Silicon

Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar ætlar í næstu viku að leggja fram beiðni um að Alþingi feli Ríkisendurskoðun að gera úttekt á því hvernig staðið var að ákvörðunum um starfsleyfi fyrir kísilver United Silicon í Helguvík, eftirfylgni eftirlitsstofnana og aðkomu ríkisins að málefnum fyrirtækisins.

Ívilnanasamningar

Hanna segir í samtali við mbl.is að miklir ágallar hafi verið á framkvæmd verkefnisins í heild. Fyrst nefnir hún hvernig staðið var að ívilnunarsamningum sem eftirlitsstofnun EFTA  hefur úrskuðað að feli í sér ríkisaðstoð en ekki hvata til nýfjárfestinga. Spyr hún jafnframt hvernig standi á endurgreiðslu vegna þessa.

Segist hún vilja ná utan um ívilnanaferlið í heild sinni og að meira sé þar undir, en félögin GMR endurvinnsla, Thorsil, Becromal og Verne fengu öll slíka samninga.

Umhverfismálin

Beiðnin um úttekt nær einnig til þess hvernig það gat orðið að mengun verksmiðjunnar sé mun meiri en gert var ráð fyrir í umhverfismati. „Ég bið um að leitað verði svara við því af hverju þessi mismunur sem sagt var frá í upphafi og því sem við blasir nú stafi,“ segir hún. „Hvað klikkaði? Var það eftirlitið eða voru gefnar rangar upplýsingar í upphafi?“ spyr hún jafnframt og segir að leita þurfi svara við þeim spurningum.

Hanna segir Ríkisendurskoðun vera vel til þess fallna að skoða þetta mál og geti samkvæmt reglum gert mat á því hvernig ríkið hafi staðið sig í málefnum sem tengjast umhverfismálum.

Hafa stofnanir þau tæki og tól sem þarf?

Hún segist binda miklar vonir við að endurskoðun sem þessi nái einnig að svara því hvort að stofnanir hafi þau tæki og tól sem þau þurfi, en Hanna tekur sérstaklega fram að ekki sé víst að stofnanir hafi gert neitt vitlaust miðað við þau ráð sem þau búi yfir.Þá segir hún að ekki sé um neitt kapphlaup að ræða í þessu máli heldur skipti máli í fyrsta lagi að það sé skoðað og svo að það sé gert vel.

Hann segir að það stefni í að beiðnin hafi þverpólitískan stuðning, en hún hefur rætt við þingmenn úr öllum flokkum um að skrifa undir beiðnina. Hún segir að ekki hafi þingmenn úr öllum flokkum náð að fara yfir málið, en að flestir taki mjög jákvætt í það. Ætlar hún að leggja málið fram um miðja viku og geri hún ráð fyrir að einhverjir bætist við þangað til. Til að geta lagt fram beiðni sem þessa þarf undirritun níu þingmanna. Segir Hanna að hún hafi þegar fengið margfaldan þann fjölda.

Hanna Katrín ætlar að leggja fram beiðni um að Alþingi …
Hanna Katrín ætlar að leggja fram beiðni um að Alþingi láti Ríkisendurskoðun gera úttekt á málefnum United Silicon. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert