Arnar sagður hafa kafnað í kjölfar árásar

Frá vettvangi í Mosfellsdal.
Frá vettvangi í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Arnar Jónsson Aspar er sagður hafa látist eftir stórfellda líkamsárás af hálfu Sveins Gests Tryggvasonar í Mosfellsdal þann 7. júní vegna köfnunar sem orsakaðist af mikilli minnkun á öndunarhæfni sem  olli banvænni stöðukæfingu sem má rekja til einkenna æsingsóráðs vegna þvingaðrar frambeygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arnar í.

Þetta kemur fram í ákæru héraðssaksóknara í málinu, en Sveini var birt ákæran fyrir helgi. Farið er fram á yfir 60 milljónir í miskabætur í einkaréttakröfum í málinu.

Sveinn er sagður hafa haldið höndum Arnars fyrir aftan bak þar sem Arnar lá á maganum og tekið hann hálstaki og slegið hann ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa. Eru afleiðingar þessa árásar taldar hafa valdið andláti Arnars.

Sveinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að árásin átti sér stað.

Árásin átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal.
Árásin átti sér stað við bæinn Æsustaði í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Er Sveinn ákærður með vísan til 2. málsgreinar 218. greinar almennra hegningarlaga, en hún tekur á stórfelldu líkams- eða heilsutjóni sem skapast af árás og ef brotaþoli hlýtur bana af.

„Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.]“ 

Í einkakröfu í málinu faraforeldrar Arnars  fram á samtals 9 milljónir í miskabætur auk útfararkostnaðar. Fyrir hönd 15 ára dóttur Arnars er farið fram á 5 milljónir í miskabætur auk missis framfæranda til 18 ára aldurs. Fyrir hönd nýfæddrar dóttur Arnars er farið fram á rúmlega 18 milljónir og unnusta og barnsmóðir Arnars fer fram á tæplega 30 milljónir í miskabætur.

Uppfært kl 14:35: Í upphaflegu fréttinni sagði að áverkar árásarinnar hefðu leitt til bana Arnars. Áverkalýsing ákærunnar leiðir til lýsingar á banameini Arnars sem er sögð köfnun vegna þeirrar stöðu sem Arnar var þvingaður í af Sveini. Hefur fréttin verið uppfærð í samræmi við þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert