Sameiginleg björgunaræfing við Ísland

Landhelgisgæslan mun leggja til skip og þyrlur og flugvél við …
Landhelgisgæslan mun leggja til skip og þyrlur og flugvél við æfinguna. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrsta sameiginlega leitar- og björgunaræfing samtaka strandgæslustofnana norðurslóðaríkja verður haldin við Ísland dagana 5. til 9. september. Markmið æfingarinnar er að þróa fjölþjóðlega samvinnu á þessu sviði og gera hana nánari. Jafnframt á æfingin að sýna fram á getu aðildarríkjanna til að ráðast í sameiginlegar aðgerðir á norðurslóðum.

Samtök strandgæslustofnana norðurslóðaríkjanna (e. Arctic Coast Guard Forum, ACGF) voru stofnuð árið 2015 til þess að styrkja samstarf og samhæfingu ríkjanna átta sem liggja að hafsvæði norðurslóða. Ríkin átta eru Ísland, Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð.

Æfingin hefur hlotið nafnið Arctic Guardian og er hún fyrsta eiginlega æfingin sem ACFG stendur fyrir og er mikilvægt skref í átt að enn nánara samstarfi aðildarríkjanna. Æfingin verður á þann veg að farþegaskip lendir í sjávarháska á milli Íslands og Grænlands.

Strandgæslustofnanir Danmerkur, Kanada, Noregs, Bandaríkjanna og Íslands leggja til skip til æfingarinnar en auk þess koma flugvélar og þyrlur frá bandarísku, dönsku, kanadísku og íslensku stofnunum. Finnland, Svíþjóð og Rússland taka þátt í æfingunni en leggja ekki til búnað.

„Stolt og ánægð“

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, segir í tilkynningu að Arctic Guardian 2017 marki mikilvæg tímamót. „Það segir sína sögu um þýðingu þessara mála að samtök strandgæslustofnana á norðurslóðum skuli efna til svo stórrar æfingar aðeins tveimur árum eftir stofnun þeirra. Ég hef áður sagt að ekkert ríki geti brugðist við sjávarháska farþegaskipa eða annarra stórra skipa á norðurslóðum upp á eigin spýtur og því skiptir miklu máli að samstarf þeirra sé náið og skilvirkt. Þessi æfing markar því þáttaskil í norðurslóðasamstarfinu. Það er auk þess mikil viðurkenning á störfum Landhelgisgæslu Íslands að æfingin skuli haldin hér við land og við erum bæði stolt og ánægð yfir því.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert