Hámark góðærisins í sjónmáli

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á blaðamannafundinum.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á blaðamannafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ætlum að ná árangri sem báðir aðilar geta verið sáttir við,“ sagði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á blaðamannafundi í dag þar sem hann kynnti áherslur ríkisins í komandi kjaraviðræðum við ríkisstarfsmenn. Þar væri fyrst og fremst um það að ræða að viðhalda þeim sterka kaupmætti sem búið væri að ná í samfélaginu.

Viðræðurnar fram undan eru við Bandalag háskólamanna (BHM), sem þó kemur ekki til viðræðna sem ein eining heldur eru 17 aðildarfélög þess í viðræðum við ríkið, og Kennarasamband Íslands (KÍ) vegna kjarasamninga framhaldsskólakennara sem losna í lok október. Ríkið legði megináherslu á að taka upp nýjan hugsunarhátt í kjaraviðræðum. Þannig yrði ýtt til hliðar þeirri gömlu sýn að samningaaðilar væru á einhvern hátt andstæðingar.

„Það er auðvitað ekki þannig,“ sagði Benedikt. Mikilvægt væri starfsmönnum að vinna á góðum vinnustað með kjör sem væru ekki lakari en annars staðar og eins væri ríkinu mikilvægt að vera slíkur vinnustaður þar sem gott fólk vildi vinna góð störf í þágu ríkisins. Því væri það samvinnuverkefni ríkisins og viðsemjenda þess að ná góðum samningum. Horft verði til þess að gera samninga sem verði ekki til mjög langs tíma.

Við erum að mörgu leyti í einstæðri stöðu

„Við erum að reyna að tryggja þau markmið sem ríkið hefur sett sér í fjárlögunum. Við erum að mörgu leyti í einstæðri stöðu núna. Það er að segja að við erum með verðbólgu sem er mjög lág og búin að vera í þó nokkurn tíma, við erum með atvinnuleysi sem er mjög lítið, við erum með kaupmátt sem er væntanlega hærri heldur en hann hefur nokkurn tímann verið,“ sagði ráðherrann. Kaupmáttur hefði hækkað mjög á undanförnum árum.

Þegar náðst hefði svo góður árangur væri megináherslan að verja hann. Það væri markmið ríkisins. Minnti hann á að síðast þegar Íslendingar hafi verið í svipaðri stöðu hvað varðar jákvæðar hagstærðir hafi verið árið 2007, þó kaupmáttur hafi þá reyndar verið heldur minni, en þá hafi heldur betur tekist að klúðra málum svo taka mætti um harmleik af mannavöldum. Ef tekist hefði að halda jafnvægi þá hefði þjóðinni vegnað betur.

„Við erum reyndar í þeirri einstöku stöðu núna á Íslandi að ef við undanskiljum húsnæðisliðinn þá hefur verðlag á Íslandi almennt lækkað um 3% undanfarna tólf mánuði. Það verður auðvitað ekki framhald á því en það er mjög mikilvægt að við förum ekki aftur í einhvers konar ástand þar sem verðbólga gæti orðið mikil, atvinnuleysi og í kjölfarið versnuðu kjör allra launamanna. Þannig að hér erum við með sameiginlega hagsmuni.“

Hægt að tryggja áfram stöðugleika og kaupmátt

Fleira skipti þó máli en aðeins launin. Félög BHM væru til að mynda með mismunandi áherslur. Horfa þyrfti á heildarmyndina. Til að mynda hvernig vinnuumhverfið væri og hvernig vinnutilhögunin væri. Ísland væri auðvitað að keppa um gott starfsfólk við útlönd. Eftir bankahrunið hefði verið flótti af hæfileikaríku fólki frá landinu. Ástæðan hafi verið sú fyrst og fremst að boðið hafi verið upp á betri kjör annars staðar.

„Við verðum að horfa á það hvernig efnahagsaðstæðurnar eru. Er ekki góðæri? Jú, það er vissulega góðæri en það eru ýmis teikn á lofti um það að góðærið sé að ná hámarki núna og þess vegna segi ég: Við skulum leggja mesta áherslu á það að varðveita kaupmáttinn. Það er það sem skiptir langmestu máli,“ sagði Benedikt. Minni vöxtur væri til að mynda í ferðaþjónustunni en áður. Mikilvægt væri að hafa það í huga í viðræðunum.

Það sem einkum skipti máli í því að varðveita stöðugleikann væru ríkisfjármálin, gengismálin og kaupgjaldsmálin. „Ef þetta spilar rétt saman þá getum við varðveitt þennan kaupmátt í lengri tíma [og] þá ættum við líka að geta haft vexti sem væru samkeppnishæfari við útlönd þannig að íslenskur almenningur og íslensk fyrirtæki þurfi ekki að standa höllum fæti.“ Enginn væri á móti því að kaupmáttur héldist góður við núverandi aðstæður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert