Heimild til hraðari málsmeðferðar

Breytingin felur meðal annars í sér nánari útfærslu á meðferð …
Breytingin felur meðal annars í sér nánari útfærslu á meðferð forgangsmála hjá Útlendingastofnun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Með breytingum á reglugerð um útlendinga, sem tók gildi 30. ágúst, er Útlendingastofnun veitt heimild til að hraða málsmeðferð hælisleitenda eins og unnt er. Breytingin felur meðal annars í sér nánari útfærslu á meðferð forgangsmála hjá Útlendingastofnun. Þau varða umsóknir einstaklinga frá ríkjum sem stofnunin metur sem örugg upprunaríki auk annarra bersýnilega tilhæfulausra umsókna.

Þannig fær stofnunin skýra heimild til að taka ákvarðanir í forgangsmálum strax að fyrsta viðtali loknu og án skriflegs rökstuðnings.

„Þá er með breytingunni áréttuð sú stefna stjórnvalda að brottvísa þeim einstaklingum sem leggja fram tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi en brottvísun felur í sér endurkomubann á Schengen-svæðið í ákveðinn tíma,“ segir í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Sigríður Anderson dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is nýverið að unnið væri að því að skerpa málsmeðferð umsókna um hæli hér á landi. Í þeim tilgangi yrðu ráðnir tíu sérfræðingar til starfa hjá Útlendingastofnun af hælislið fjárlaga.

Reglugerð um breytingu á reglugerð um útlendinga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert