Réttað í ljóslifandi sakamáli

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands, segir aftökurnar á …
Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands, segir aftökurnar á Agnesi og Friðriki á Þrístöpum í janúar 1830 hafa setið í þjóðarsálinni alla tíð síðan og að málið verði seint gert upp. mbl.is/Árni Sæberg

„Aftökurnar á Agnesi og Friðriki á Þrístöpum í janúar 1830 hafa setið í þjóðarsálinni alla tíð síðan og málið verður sennilega seint að fullu gert upp. Málavextir eru ekki síður áhugaverðir með tilliti til réttvísinnar og samfélagshátta á fyrri tíð, enda er áhugi lögfræðinga á þessu máli mikill og meiri en ég nokkru sinni taldi.“

Þetta segir Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands í Morgunblaðinu í dag.

Næstkomandi laugardag, 9. september, stendur Lögfræðingafélag Íslands fyrir ferð á slóðir síðustu aftökunnar á Íslandi, en hún byggðist á málsókn og dómi sem lögfræðingar ætla nú að taka upp að nýju – með „réttarhöldum“ sem þó hafa ekkert lögformlegt gildi.

Morðin eru ljóslifandi

Saga þessi er í stuttu máli sú að hinn 12. janúar 1830 voru Agnes Magnúsdóttir, vinnukona á Illugastöðum á Vatnsnesi, og Friðrik Sigurðsson, bóndasonur frá Katadal í sömu sveit, hálshöggvin á Þrístöpum við Vatnsdalshóla. Þau höfðu þá áður verið dæmd til dauða fyrir morð á tveimur mönnum aðfaranótt 14. mars 1828, Nathani Ketilssyni, bónda á Illugastöðum, og Pétri Jónssyni, vinnumanni frá Geitaskarði, ásamt Sigríði Guðmundsdóttur, en hún var náðuð og sett í ævilangt fangelsi í Kaupmannahöfn. Einnig fengu fleiri dóma, svo sem Þorbjörg Halldórsdóttir, móðir Friðriks, og Daníel Guðmundsson, vinnumaður á Geitaskarði.

„Sagan af Illugastaðamorðunum hefur alltaf verið ljóslifandi fyrir norðan, því kynntist ég strax í æsku á Hvammstanga þar sem ég er alin upp. Sagnfræðingar hafa verið að skoða málsgögn og meðal annars hafa birst mjög áhugaverðar greinar í tímaritinu á síðustu árum. Í kjölfar lesturs þeirra greina má segja að hugmyndin hafi vaknað að áhugavert væri að sjá nálgun lögfræðinga nútímans að málinu. Það má segja að hugmyndin hafi slegið í gegn því hátt í 200 manns verða viðstaddir „réttarhöldin“ og það er löngu orðið uppselt á viðburðinn,“ segir Eyrún.

Liggja yfir dómskjölum

Leiðangur lögfræðinga næstkomandi laugardag hefst með heimsókn á helstu sögustaði Illugastaðamorðanna á Vatnsnesi og að Þrístöpum. Sýndarréttarhöldin verða svo í félagsheimilinu á Hvammstanga, þar sem Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari mun sækja málið, en til varna verða hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Guðrún Sesselja Arnardóttir. Dómarar verða Ingibjörg Benediktsdóttir, fv. hæstaréttardómari, Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari og Davíð Þór Björgvinsson, fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og verðandi dómari við Landsrétt.

„Auðvitað fengju morðmál eins og á Illugastöðum allt annan framgang í dag en var raunin fyrir tæpum 200 árum, en 140 húnvetnskum bændum var gert að fylgjast með aftökunni á sínum tíma. Það sem gerir málið forvitnilegt nú er að lögfræðingar liggja yfir dómskjölum og gögnum úr yfirheyrslum. Við vorum svo heppin að fá aðgang að skjölum sem Eggert Þór Bernharðsson hafði látið prenta upp áður en hann lést. Svo hefur skáldsaga Hannah Kent Náðarstund sem byggist á þessum atburðum selst vel víða um lönd og laðað fjölda erlendra ferðamanna á sögusviðið í Húnaþingi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert