Stígurinn undir fossinn opinn á ný

Hægt er að ganga fyrir aftan Seljalandsfoss á ný.
Hægt er að ganga fyrir aftan Seljalandsfoss á ný. mbl.is/Rax

Opnað var aftur fyrir gangandi umferð um Seljalandsfoss í morgun og skilti sett upp sem vara við grjóthruni. Á laugardag var lokað fyrir umferð bak við fossinn eftir að grjóthrun varð úr berginu fyrir ofan fossinn. Lög­regl­an á Suður­landi ákvað í sam­ráði við land­eig­end­ur við Selja­lands­foss að loka göngu­leiðinni þar til búið væri að tryggja að ekki yrði frekara grjóthrun.

„Við hentum aðeins smá grjóti til en það var ekki mikið á göngustígnum,“ segir Kristján Ólafs­sons, formaður Fé­lags land­eig­enda við Selja­lands­foss, sem fór í morgun yfir göngustíginn áður en hann var opnaður að nýju. Stórir steinar sem vógu allt að eitt hundrað kíló féllu milli kersins og göngustígsins. 

„Fólk var mjög ánægt þegar við opnuðum göngustíginn,“ segir Kristján. Margir ferðamenn voru í morgun við fossinn eins og alla jafna er á þessum eftirsótta stað. Margir höfðu lagt á bílastæðinu við fossinn í morgun.

Í ágúst var tekin upp gjaldskylda á bílastæðinu. Talsvert hefur borið á því að fólk leggi frekar á veginum í stað þess að greiða gjald á bílastæðinu. Ekki bar á því í morgun við Seljalandsfoss enda hefur Vegagerðin bætt allar merkingar á veginum, að sögn Kristjáns.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert