Kennir Þorgerði um verðlækkunina

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ráðherra landbúnaðar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ráðherra landbúnaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir óþolandi að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðarráðherra stilli bændum upp gegn neytendum. Hann segir að tímabundin útflutningsskylda myndi ekki leiða til lægra verðlags og bitna á neytendum. Þá lýsir formaðurinn einnig því viðhorfi sínu að Þorgerður Katrín hafi með aðgerðaleysi sínu í sumar valdið því að afurðaverð til bænda sé „mun lægra“ en annars hefði verið.

Oddný Steina Valsdóttir bregst á Facebook síðu sinni við tillögum Þorgerðar Katrínar, sem ætlað er að leysa þann vanda sem steðjar að sauðfjárræktinni. Þorgerður Katrín hefur sagt að tími sé kominn á aðgerðir sem leiði ekki af sér endurtekið efni. Hún hafi því reynt að nálgast vandann á annan hátt en áður.

Meginmarkmið tillaganna er að fækka sauðfé um 20%. Það á meðal annars að gera með því að greiða bændum fyrir að hætta sauðfjárrækt eða minnka við sig.

Vildu útflutningsskyldu

Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands hafa gangrýnt tillögunar að hluta og segja þær ekki taka á þeim vanda sem felst í uppsöfnuðum birgðum kjöts. Bændasamtökin lýstu til dæmis þeirri skoðun sinni að gera hefði átt afurðastöðvum kleift að taka sameiginlega ábyrgð á útflutningi kindakjöts.

„Þær hugmyndir hafa ekki fengið brautargengi og staðan því óbreytt. Hættan er sú að þær aðgerðir sem landbúnaðarráðherra nú leggur til séu ekki nægar og verði aðeins til þess að draga ástandið á langinn.“

Bændur fá 25-35% lægra verð en í fyrra, fyrir afurðir …
Bændur fá 25-35% lægra verð en í fyrra, fyrir afurðir sínar. Mynd af Facebook síðu Seglbúð

Segir ráðherra bera ábyrgð á lægra verði

Oddný harmar í pistli sínum að ekki hafi náðst að leggja fram tillögur sem bændur geti staðið að ásamt stjórnvöldum. Hún sakar Þorgerði Katríu um að hafa „látið sumarið líða“ án þess að bregðast við. „Það hefur kostað það að verðin [sic] sem okkur bændum bjóðast nú í haust eru mun lægri en annars hefði orðið. Þau eru núna þau lægstu í Evrópu að Rúmeníu frátalinni.“ Hætt sé við að greinin verði lengur að vinna sig út úr vandanum en ella.

Oddný segir að tvennt í viðtali RÚV við Þorgerði Katrínu um tillögurnar geti hún ekki fellt sig við. „Í fyrsta lagi að segir ráðherra að útflutningsskylda muni koma niður á neytendum. Það var aldrei farið fram á varanlega útflutningsskyldu og hvað þá að henni yrði beitt á þann hátt að sú aðgerð myndi leiða til hækkandi verðlags, þannig sú fullyrðing stenst engan veginn og reyndar er óþolandi að okkur bændum sé stillt upp gegn neytendum með þessum hætti.“

Hún segir að bændur hafi eingöngu farið fram á útflutningsskyldu sem tímabundna aðgerð til að hægt sé að vinna sig út úr ástandinu.

Þorgerður Katrín nefndi í viðtalinu að bændur hefðu farið fram á 200 milljónir til að ráðast í markaðsátak.

Oddný segir að það sé rétt en að slíkt átak væri jafnvel óþarft ef ráðherra væri tilbúinn að leggja útflutningsskyldu á afurðastöðvarnar. „Það er hins vegar látið hjá líða að nefna að bændur komu fram með tillögu um úttekt á ferlinu frá bónda til neytenda og tillögu um aukna áherslu á verkefni á sviði loftslagsmála, þær tillögur er ráðherra nú tilbúinn að eigna sér. Tillögur sem bændur lögðu fram í þessu ferli voru alltaf um það bil helmingi ódýrari en þær tillögur sem ráðherra leggur fram nú,“ skrifar Oddný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert