Aftur á hnakkinn eftir alvarlegt slys

Erla tók þátt í Smáþjóðaleikunum fyrir hönd Íslands í sumar …
Erla tók þátt í Smáþjóðaleikunum fyrir hönd Íslands í sumar og lenti í öðru sæti í götuhjólreiðum og þriðja sæti í fjallahjólreiðum. Ljósmynd/Aðsend

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir slasaðist alvarlega á öxl í Kia-Gullhringnum, hjólreiðakeppni sem fram fór í júlí síðastliðnum í nágrenni Laugarvatns. Nú, átta vikum síðar, er hún aftur sest á hnakkinn og getur ekki beðið eftir að þeysast um göturnar í Tour of Reykjavík sem fram fer um helgina.

Frétt mbl.is: Hjólreiðar við allra hæfi um helgina 

Erla, sem er mannfræðingur að mennt og starfar í markaðsdeild Arion banka, kynntist hjólreiðum af alvöru fyrir tveimur árum og hefur náð glæsilegum árangri á þessum stutta tíma. Erla var útnefnd Hjólreiðakona Íslands árið 2016, en það ár sigraði hún meðal annars Bláalónsþrautina, Kia-Gullhringinn, RB Classic og Tour of Reykjavík, ásamt því að verða íslandsmeistari í fjallahjólreiðum og maraþonfjallahjólreiðum.

Til stóð að árið í ár yrði jafn glæsilegt. „Ég hóf árið með stæl með því að æfa fyrir Smáþjóðaleikana, en Hjólreiðasamband Íslands kom í fyrsta skipti á laggirnar landsliðshóp sem tók þátt á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í byrjun júní. Ég æfði mikið fyrir leikana og komst í form lífs míns,“ segir Erla í samtali við mbl.is.  

Erla vann til silfurverðlauna í götuhjólreiðum á Smáþjóðaleikunum og voru verðlaunin fyrstu alþjóðlegu verðlaun Íslands í hjólreiðum. Erla keppti einnig í fjallahjólreiðum og hreppti bronsverðlaun í þeim flokki.  

Árangur Erlu er stórglæsilegur, sérstaklega í ljósi þess að hjólreiðarnar eru fyrst og fremst áhugamál hennar. „Hjólreiðarnar eru auka hjá mér, ég er tveggja barna móðir, en þetta er bara svo gaman og snýst um að skipuleggja sig. Ég hjóla í vinnuna, og mikið áður en krakkarnir vakna og á kvöldin þegar þau eru komin í háttinn.“ Bakgrunnur Erlu liggur í sundi og crossfit. „Áhuginn á hjólreiðum kviknaði svo í Wow Cyclothon, að sjálfsögðu. Ég var að æfa crossfit af kappi og kynntist hjólreiðunum þegar ég fór með crossfitinu í Wow cyclothon sumarið 2014. Ég þurfti svo að hætta í crossfit vegna brjósklos í baki og þá komu hjólreiðarnar sterkar inn og hafa alveg bjargað mér og bakinu.“

Gaman að hjóla hratt í karlahópi

Erla ákvað að taka aftur þátt í Gullhringnum í ár en þá var hún nýlega komin heim af Smáþjóðaleikunum. „Það gekk allt svo vel og mig langaði að taka þátt í öllum keppnum.“ Þar sem Kia-Gullhringurinn er almenningshjólakeppni hjóla karlar og konur saman í hópi sem er fyrirkomulag sem Erla er mjög hrifin af. „Það er svo gaman að hjóla hratt í karlahópi. Mér tókst að komast strax í fremstu grúppu með strákunum og er á fleygiferð um uppsveitir Laugarvatns þegar slysið verður á 60 kílómetra hraða þegar hjólari fyrir framan mig lendir í því að festa framdekkið í kindahliði í götunni, sem var þá í rauninni ónýtt kindahlið sem enginn hafði tekið eftir.“

Allt til­tækt viðbragðslið hjól­reiðakeppn­inn­ar, sjúkra­flutn­inga­menn og þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar voru kölluð til aðstoðar eft­ir slysið. Ásamt Erlu skullu fjórtán kepp­end­ur í jörðina. Fimm voru fluttir á Landspítalann til aðhlynningar og fleiri á slysadeildina á Selfossi. 

„Ég hélt að hann væri dáinn“

Sjokkið sem fylgdi slysinu hafði mikil áhrif á Erlu. „Þetta var algjörlega hræðileg lífsreynsla. Við fljúgum nokkur upp í loft og ég lendi við hliðina á einum félaga mínum sem lá þarna í blóði sínu. Ég  hélt að hann væri dáinn, hann lá í blóðpolli með andlitið í götunni.“ Sjálf fann Erla strax að hún væri mikið slösuð. „Ég náði að mjaka mér í burtu frá blóðpollinum. Ég fékk mikið sjokk og man þetta mjög óljóst.“

Erla var flutt með sjúkrabíl á Landspítalann þar sem við tóku frekari rannsóknir. „Ég var sett í hálskraga og á uppblásna grjónadýnu inn í sjúkrabíl og man ekkert meira eftir það. Ég fór í myndatöku og hélt jafnvel að ég hefði brotið hálslið eða hryggjalið og var skíthrædd í sjokki.“ Betur fór en á horfðist, Erla braut engin bein en slasaðist þó á höfði, hálsi og heilmikið á öxl þar sem hún sleit liðbönd, sinar og festingar.

Erla á fyrstu æfingunni, þremur vikum eftir slysið. „Ég ór …
Erla á fyrstu æfingunni, þremur vikum eftir slysið. „Ég ór í landsliðsbúninginn til að peppa mig í verkefnið og tók fatlann af fyrir myndatökuna.“ Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að læra af slysinu

Við tók strangt bataferli en Erla var sannfærð um að missa ekki alfarið af keppnistímabilinu. Hún getur ekki beðið eftir að komast aftur á keppnisbrautina en segir jafnframt að mikilvægt sé að læra af slysinu í sumar. „Þetta er fyrsta alvarlega hjólaslysið á Íslandi og við eigum eftir að læra mikið um öryggismál tengt hjólakeppnum í kjölfar þessa slyss. Ég veit að Hjólreiðasamband Íslands tekur þessu mjög alvarlega,“ segir Erla.   

Ein af nýjungum í öryggismálum fyrir Tour of Reykjavík sem fram fer um helgina er úttekt Vegagerðarinnar á dagleiðinni sem hjóluð verður á laugardaginn. „Vegagerðin mun aðstoða við að fylla ofan í stærstu holurnar á Nesjavallaleið og athuga hvort kindahliðin séu örugg,“ segir Erla.  

Hún stefnir ekki á sigur í keppninni líkt og í fyrra en segir það ekki skipta öllu máli fyrir sig núna, aðalatriðið sé að vera með og hafa gaman. „Það er frábært að fá að taka þátt í viðburði eins og Tour of Reykjavík er þó svo að ég sé ekki í mínu besta formi og ekki á mínum besta stað, andlega og líkamlega. Mér finnst alltaf þess virði að vera með. Ég er alltaf að hvetja konur til að vera með og vil að þær líti á þetta sem skemmtilegan viðburð og tækifæri til að hjóla æðislega leið í frábærri umgjörð, en ekki endilega keppni.“

Von er á dönskum og hollenskum landsliðskonum í götuhjólreiðum sem ætla að taka þátt í Tour of Reykjavík og segir Erla það vera mikla hvatningu fyrir íslenskar hjólreiðakonur. „Það er mikill heiður að fá erlendar konur til að keppa við og breiðari samkeppni.“

Erla sigraði í Tour of Reykjavík í fyrra.
Erla sigraði í Tour of Reykjavík í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

„Brjálæðislega skemmtilegt“

Tour of Reykjavík er síðasta keppni keppnistímabilsins og eins konar uppskeruhátíð hjólareiðafólks. „Við tekur svo dimmur veturinn með inni trainer-æfingum,“ segir Erla og hlær. „En nei ég segi svona. Mér finnst gaman að fjallahjóla í íslenskri náttúru og ætla að gera það eins lengi og mögulegt er. Svo taka við inniæfingar á trainer-num og ég kem vonandi sterk inn næsta sumar. Þá verð ég 42 ára og vonast til að mæta einhverjum ungum og sprækum stelpum sem reyna að vinna mig.“

Erla hvetur því allar konur að fara út að hjóla. „Og alls ekki vera hræddar við að keppa og taka þátt í hjólaviðburðum. Það er komið svo mikið af alls kyns keppnum, íþróttin hefur stækkað gríðarlega og ástæðan er einföld: Þetta er svo brjálæðislega skemmtilegt.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert