Átak lögreglunnar sagt framúrskarandi

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. mbl.is/Eggert

Fjallað er sérstaklega um samstarfsverkefni lögreglunnar og sveitarfélaganna, þar sem ráðist var í átak gegn heimilisofbeldi, í nýútkominni skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD). Þar eru framúrskarandi nýsköpunarverkefni kynnt.

„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu, þegar það er tekið eftir því sem við erum að gera. Stóra málið er samt að þjóna almenningi betur,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri.

Efnahags- og framfarastofnunin valdi íslenska samstarfsverkefnið jafnframt sem fyrirmynd varðandi það hvernig hægt er að breyta rótgrónu kerfi til hins betra.

Í skýrslunni, sem lesa má á vef lögreglunnar, er greint frá því hvernig lögreglan og sveitarfélögin tóku upp nýtt verklag í þessum málaflokki og sendu út þau skilaboð að heimilisofbeldi er ekki liðið.

Kynnt á UN Women í fyrra

Sigríður Björk segir að nýtt verklag lögreglunnar gegn heimilisofbeldi hafi verið kynnt erlendis, þar á meðal á ráðstefnu UN Women í New York í fyrra. Þar hafi hugmyndin að Bjarkarhlíð fæðst en það hús á að aðstoða þolendur ofbeldis. Einnig hafa ýmsar þjóðir komið hingað til lands til að kynna sér verklagið.

Samstarf ólíkra eininga

Verklagið felur í sér nýja nálgun, eða samstarf á milli ólíkra eininga þar sem ríkið og sveitarfélög vinna saman. Einnig koma góðgerðarfélög við sögu og meðferðaraðilar. Sameiginlega sé heildstæð lausn búin til fyrir þolendur,  gerendur og börn. „Það hefur sýnt sig hversu slæm áhrif það hefur á börn að alast upp við svona aðstæður,“ segir Sigríður Björk.

Málum hefur fjölgað að meðaltali úr 20 í 55 á …
Málum hefur fjölgað að meðaltali úr 20 í 55 á mánuði. mbl.is/G.Rúnar

Mál rannsökuð til fulls 

Spurð nánar út í árangurinn af átakinu segir hún að strax og það hófst hafi málum tekið að fjölga að meðaltali úr 20 á mánuði í 55 og hefur sú tala nokkurn veginn haldist. Málunum hefur einnig fjölgað vegna breyttrar skráningar. „Mál sem voru kannski áður hávaðaútköll eða ágreiningur kom í ljós að voru ofbeldismál. Með því að rannsaka þau núna til fulls erum við að taka á mun fleiri málum en áður var,“ segir hún og nefnir líka að lögreglan láti reyna meira á nálgunarbönn og fleiri mál fyrir dómstólum en áður.

Verklagið var fyrst þróað á Suðurnesjum og tekið upp í framhaldinu hjá öðrum lögregluyfirvöldum. Í byrjun árs 2015 hófst innleiðing og þróun verkefnisins hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert