Fá ekki einkaafnot af fjalllendi

Jóhann H. Hafstein, eigandi Viking Heliskiing, bendir á að ekki …
Jóhann H. Hafstein, eigandi Viking Heliskiing, bendir á að ekki sé fordæmalaust að þyrlufyrirtæki semji um afnot af fjalllendi við sveitarfélög. Ljósmynd/aðsent

„Erindið snerist ekki um að óska eftir því að aðrir væru útilokaðir frá þessu svæði, svo sem göngufólk og vélsleðamenn. Þetta snerist aðeins um starfsemi fyrir þyrluskíði,“ segir Jóhann H. Hafstein, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Viking Heliskiing. Bæjarráð Fjallabyggðar synjaði fyrirtækinu á þriðjudag um viðræður við sveitarfélagið um einkaafnot af fjalllendi sveitarfélagsins til skíðaiðkunar.

Jóhann segir í samtali við mbl.is að markmiðið með þessari beiðni hafi verið að tryggja félaginu svæði, fyrst og fremst í öryggisskyni. „Vissulega er svæðið [Tröllaskagi] í heild stórt en þetta svæði sem sveitarfélagið á er alls ekki stórt,“ segir Jóhann.

Jóhann H. Hafstein segir góðan uppgang í þyrluskíðamennsku.
Jóhann H. Hafstein segir góðan uppgang í þyrluskíðamennsku. Ljósmynd/aðsent

Hann segir að þrjú fyrirtæki selji ferðir sem þessar á Íslandi. Hvert um sig hafi tvær þyrlur á sínum snærum, í mars, apríl og maí. Nokkur samkeppni sé því í greininni en aðsókn í skíðaferðir hafi verið góð. Hann bendir á eitt fyrirtækið hafi til að mynda samning af þessum toga við Dalvíkurbyggð. Jóhann segir að Viking Heliskiing sé alls ekki landlaust eða í vandræðum með að fá leyfi almennt. Flest svæðin sem þeir skíði á séu hins vegar í einkaeigu og notkun háð samningi eða leyfi frá jarðeigendum.

Hafa jafnan rétt á við aðra

Eins og áður segir hafnaði bæjarráð beiðninni en Viking Heliskiing hefur þó jafnan rétt á við aðra til nýtingar. „Bæjarráð telur ekki rétt að gerður verði samningur um einkaafnot af fjalllendi sveitarfélagsins við eitt fyrirtæki umfram annað. Lítur bæjarráð svo á að Viking Heliskiing hafi jafnan rétt á við aðra til nýtingar á fjalllendi sveitarfélagsins.“

Jóhann ítrekar að beiðnin hafi verið lögð fram til að tryggja öryggi ferðamanna í fjöllunum og koma í veg fyrir að margar þyrlur séu að vinna á svipuðum svæðum. Niðarstaðan breyti þó engu um starfsemi fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert