Framfærslan talin aðdráttarafl

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Með breyttri reglugerð við meðferð forgangsmála hjá Útlendingastofnun er verið að skýra heimildir stofnunarinnar til að fella niður þjónustu við þá sem koma hingað til að óska eftir hæli frá öruggum löndum þegar neikvæð ákvörðun í máli þeirra liggur fyrir.

Þetta segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

Þannig verður framfærsla þeirra sem sækja hér um að tilhæfulausu felld niður þegar búið er að taka ákvörðun í málum þeirra.

„Menn meta það þannig að þetta hefur verið talið sem mögulegt aðdráttarafl hingað á fólk sem kemur hingað frá öruggum löndum með allar þessar tilhæfulausu umsóknir, sem er meginþorri af öllum umsóknum sem eru lagðar fram hér. Með þessari skýru heimild liggur fyrir að þetta er möguleiki sem Útlendingastofnun getur gripið til,“ greinir Sigríður frá.

Vinna við hælisumsóknir kostaði 2,5 milljarða 

Spurð út í kostnaðinn sem hefur verið við umsóknir sem þessar segir hún að fyrir liggi að þessi svokallaði hælisliður, þar sem eingöngu er talað um vinnu við hælisumsóknir, hafi kostað um 2,5 milljarða króna á síðasta ári. „Þetta eru auðvitað miklir peningar í húfi og líka tími sem fer í afgreiðslu á tilhæfulausum umsóknum. Þetta hefur tekið frá tíma við afgreiðslu annarra mála sem þurfa að fá efnismeðferð, þannig að þessi reglugerðarbreyting er gerð til að tryggja að þessi málsmeðferð verði sem hröðust og einföldust í þessum málum þegar um tilhæfulausar umsóknir er að ræða.“

Hafa burði til að sjá sér farborða

Aðspurð hvort fólk sem hingað kemur standi hugsanlega uppi með enga peninga vegna hinnar breyttu reglugerðar segir Sigríður að Útlendingastofnun hafi umrædda heimild til að fella niður þjónustu við þá og hún þurfi að meta það. „Það liggur hins vegar alveg fyrir að sumir þeirra sem koma hingað hafa burði til þess að sjá sér farborða. Aðalatriðið er samt að menn fari sem fljótast úr landi þegar ákvörðun liggur fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert