Mega ekki brenna svartolíu

Skemmtiferðaskip hafa ekki heimild samkvæmt lögum til þess að brenna svartolíu í kringum landið eins og skilja hefur mátt í fjölmiðlaviðtölum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun. Hið rétta sé að þau megi annaðhvort brenna dísilolíu eða gasolíu. Þar sem gasolía sé mun dýrari megi gera ráð fyrir að dísilolía verði aðallega fyrir valinu.

„Komur skemmtiferðaskipa hingað til lands hafa verið gagnrýndar mjög í fréttum að undanförnu í kjölfar einnar mælingar á loftmengun frá skipi sem hér lá í höfn. Án þess að gera lítið úr niðurstöðum þeirrar mælingar, er þó ekki hægt að draga af henni þá ályktun að svartolíu sé brennt í þessum skipum við bryggjur landsins. Umræðan hefur að hluta til spunnist um reykinn frá skipunum, en það að sjá svartan reyk frá þeim gefur ekki endilega tilefni til fullyrðinga um hvaða eldsneyti sé verið að brenna,“ segir enn fremur.

Þegar skemmtiferðaskipin liggi við bryggju gildi hins vegar að þar megi aðeins brenna gasolíu sem nái í raun til allra skipa. „Reyndar mæla reglur svo fyrir að skipum beri að nýta sér rafmagn við þær aðstæður, sé hægt er að koma því við. Umhverfisstofnun fær reglulega upplýsingar frá höfnum landsins um eldsneyti skipa sem hér koma til hafnar og ekkert í þeim gögnum bendir til að skipin séu að brenna svartolíu við bryggju, enda er það ólöglegt.“

Rýmri reglur gilda um fiski- og flutningaskip

Reglur um olíunotkun séu hins vegar rýmri þegar fiski- og flutningaskip eru annars vegar en þau megi brenna svartolíu að vild í kringum landið séu þau utan hafna. Dæmi séu um ný skip í íslenska fiskiskipaflotanum sem útbúin séu til að brenna svartolíu. „Þó svo að skemmtiferðaskip mengi talsvert meira en flest önnur skip, vegna stærðar sinnar, má ætla að loftmengun frá skemmtiferðaskipum sem hingað koma sé mun minni en sem nemur heildarmengun frá öðrum skipum sem hér hafa viðkomu og því ef til vill vert að beina frekar sjónum að því.“

Umhverfisstofnun ætli að hefja eftirlit með eldsneytisnotkun skipa á næstunni eins og komið hafi fram með sérstaka áherslu á brennisteinsinnihald. „Undirbúningur þeirrar vinnu hófst áður en fréttaflutningurinn undanfarið kom til og er stefnt að því að eftirlitið hefjist núna fyrir áramót. Óvíst er hvort einhver skemmtiferðaskip muni liggja við íslenska bryggju þegar sýnin verða tekin og mun þá athugun Umhverfisstofnunar beinast að öðrum skipum. Næsta sumar er svo stefnt á að gera sérstaka rannsókn til að staðreyna hvers konar olíu skemmtiferðaskip sem hingað koma eru að brenna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert