Ráðlagt að stunda endaþarmsmök til að forðast sársauka

Læknar hafa gefið sárþjáðum konum misgáfuleg ráð.
Læknar hafa gefið sárþjáðum konum misgáfuleg ráð. Mynd/Wikipedia

Dæmi eru um að læknar hafi ráðlagt konum sem eru sárþjáðar eftir að hafa farið í aðgerð við þvagleka, eða blöðru-, leg og endaþarmssigi, þar sem net er grætt í leggöng þeirra, að stunda endaþarmsmök eða snúa sér að kynlífi með konum, þrátt fyrir að vera gagnkynhneigðar. Margar þessara kvenna hafa upplifað mikinn sársauka við kynlíf eftir aðgerðinar og sumar hverjar treysta sér jafnvel ekki lengur til að stunda kynlíf. Þær upplifa mikið skilningsleysi lækna á vandanum. 

Þetta er eitt af því sem hefur komið fram við réttarhöld sem standa nú yfir í alríkisdómstóli Ástralíu þar sem rekið er skaðabótamál yfir 700 kvenna á hendur lyfja- og lækningavörurisanum Johnson & Johnson sem framleiðir netin sem mest hafa verið notuð við slíkar aðgerðir. The Guardian greinir frá.

Of lítið prófuð og of mikið notuð

Ýmis vand­kvæði og alvarlegar auka­verk­an­ir hafa komið upp í tengsl­um við net­in og hafa kon­ur lýst óbæri­leg­um sárs­auka vegna þeirra. Sum­ar kvenn­anna geta jafn­vel ekki gengið vegna sárs­auka og ekki stundað kyn­líf, líkt og áður sagði. Sjálfsvígshugsanir hafa einnig komið fram. Segja konurnar lífs­gæði sín hafa því skerst veru­lega. 

Netin hafa verið notuð af læknum víða um heim, þar á meðal hér á Íslandi, en þó í litlum mæli. Krist­ín Jóns­dótt­ir, yf­ir­lækn­ir á kvenna­deild Land­spít­al­ans, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að netin hefðu ekki verið nógu mikið rannsökuð og prófuð áður en þau voru sett á markað og kynnt sem lausn við þessu vandamáli. Fleiri læknar deila þeirri skoðun. Kristín sagði netin jafnframt alltof mikið notuð í þeim tilfellum þar sem aðrar leiðir væru æskilegri.

Net­in eru annað hvort grædd und­ir þvagrás­ina eða und­ir slím­húð í leggöng­um og koma þau í veg fyr­ir að líf­færi, eins og leg og þvag­blaðra, sígi niður og þrýsti sér upp að vegg leg­gangn­anna, sem get­ur valdið kon­um mikl­um óþæg­ind­um. Er þetta al­gengt vanda­mál hjá kon­um eft­ir barns­b­urð.

„Samkynhneigð gæti verið góður kostur“

Við réttarhöldin hafa verið birtir tölvupóstar sem kvensjúkdómalæknar, tengdir Johnson & Johnson, sendu sín á milli og ræddu um vandamál þessara kvenna. Tölvupóstarnir þykja varpa ljósi á algjört skilningsleysi og vanvirðingu gagnvart konunum. Þeir ræddu meðal annars um aðra valkosti kvenna sem upplifa mikinn sársauka við kynlíf eftir aðgerðina.

„Það er alveg satt að samkynhneigð gæti verið góður kostur,“ skrifaði einn læknirinn. Annar talaði um hvað honum þætti erfitt að minnast á kynlíf við sjúklinga sína. „Ég sagði við sjálfan mig að ef ég færi að ræða við sjúklinga mína um fullnægingar, munnmök, samkynhneigð, snípinn, G-blett eða eitthvað eitthvað, þá yrði ég fljótt talinn kynlífssjúkur, pervert eða óeðlilega forvitinn.“ Þá hafa konur sjálfar lýst því réttarhöldin að læknar hafi mælt með endaþarmsmökum.

Tölvupóstar læknanna og frásagnir kvennanna hafa eðlilega misboðið meðlimum í áströlskum stuðningshópi kvenna sem glíma við aukaverkanir vegna netanna. Margar hafa þó svipaða sögu að segja af samskiptum sínum við lækna.

Endaþarmurinn verði einnig misnotaður

„Leggöngum okkar hefur verið misþyrmt með þessum netum og nú stinga læknar upp á því að endaþarmurinn verði einnig misnotaður. Aðeins kvenhatarar geta hugsað svona,“ skrifaði ein kvennanna inn í sameiginlega Facebook-hóp.

„Þessar hugmyndir gefa það í skyn að konur séu ekkert nema ílát fyrir karlmenn til að losa í. Að það sé hægt að nota hvaða gat sem er. Mér finnst ótrúlegt að einhver, sérstaklega sá sem sérhæfir sig í að meðhöndla konur læknisfræðilega, skuli vera svo hugsunarlaus og hrokafullur, að mæla með að endaþarmsmökum sem lausn á sársaukafullu kynlífi,“ skrifar önnur.

Mikil reiði ríkir meðal kvennanna og þeim finnst þær hafa verið notaðar sem tilraunadýr fyrir framleiðanda netanna. Sambærileg dómsmál hafa verið höfðuð gegn Johnson & Johnson í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.

Um þrjár til fjórar aðgerðir við blöðru-, leg og endaþarmssigi, þar sem net eru notuð, eru gerðar hér á landi á ári hverju. Þá er, að sögn Kristínar, búið að reyna alla aðra möguleika. Netin frá Johnson & Johnson voru notuð á Íslandi um árabil en þeim var skipt út fyrir nokkrum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert