Sex mánaða nálgunarbann staðfest

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness frá 4. september um að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni gagnvart konu og barni.

Í úrskurði héraðsdóms kom fram að maðurinn skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði og megi því ekki koma á eða í námunda við heimili konunnar eða skóla barnsins á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis báðar byggingarnar.

Einnig var lagt bann við því að maðurinn veiti þeim eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Í greinagerð barnaverndarnefndar er upphaf málsins rakið til ársins 2014 er maðurinn sótti barnið á leikskóla í leyfisleysi, ók með það út fyrir höfuðborgarsvæðið og, samkvæmt nafnlausri tilkynningu til yfirvalda, hótaði að svipta sig og barnið lífi.

Maðurinn mun hafa sótt barnið ítrekað í leyfisleysi á leikskólann þar sem hann hafi haft uppi ógnandi hegðun og gróft málfar í garð starfsmanna.

Konunni var jafnframt útvegaður neyðarhnappur.

Að mati barnaverndar stafar konunni og barninu raunveruleg hætta af manninum og talið er að hann muni halda ofsóknum sínum í þeirra garð, samkvæmt úrskurði héraðsdóms.

Einnig kom fram í dómi héraðsdóms að samkvæmt greinargerð lögreglu sætti maðurinn einnig nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni vegna hótana og ofbeldis. Tvær ákærur hafa verið gefnar út á hendur honum vegna ofbeldisbrota í hennar garð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert