Full ástæða til að skoða örplast í neysluvatni

Foss í Bláfjallakvísl. Íslendingar hafa stólað á að neysluvatn hér …
Foss í Bláfjallakvísl. Íslendingar hafa stólað á að neysluvatn hér á landi sé hreint. Engin rannsókn hefur hins vegar verið gerð á því hvort að örplast leynist í vatninu. mbl.is/RAX

Engin rannsókn hefur verið gerð þar sem skoðað er hvort að plastagnir sé að finna í neysluvatni hér á landi. Þetta segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir, umhverfisefnafræðingur hjá Matís. Greint var frá því á vef Guardian að örplast hafi fundist í neysluvatni í 83% tilvika í stórri rannsókn sem náði til ríkja Evrópu, Ameríku, Afríku og Asíu.

Ástandið var verst í Bandaríkjunum þar sem plast fannst í 94,4% tilvika, en þar sem það mældist best í Evrópu fannst örplast engu að síður í drykkjarvatni í 72% tilvika.

Hrönn segir einu rannsóknina á örplasti í íslensku umhverfi, sem henni sé kunnugt um að hafi verið gerð, sé rannsókn á affallsvatn frá skólphreinsistöðum sem birt var í fyrra. „Þá var verið að skoða affallsvatn frá skólphreinsistöðum til að meta hvað hvort að hreinsistöðvarnar væru að ná að hemja þessar agnir,“ segir Hrönn sem tók þátt í rannsókninni.

Niðurstaðan var sú að  skólphreinsistöðvar á Íslandi séu ekki að ná að hemja örplastið og agnirnar fari óhreinsaðar út í sjóinn. Hreinsistöðvar í Finnlandi og Svíþjóð sem skoðaðar voru í rannsókninni voru hins vegar að ná að hemja 100 míkrógramma örplastagnir.

Hrönn fundaði í kjölfarið með  borgarráði, umhverfisdeild borgarinnar og sveitastjórn Hafnafjarðar. „Ég held að það sé verið að ræða um hvað sé hægt að gera,“ segir hún.

Svín á beit á ruslaug í Kenía. Plast er næsta …
Svín á beit á ruslaug í Kenía. Plast er næsta stóra umhverfisvandamál að mati Hrannar. AFP

Höfum stólað á að íslenska vatnið sé hreint

Umræða um örplast í neysluvatni hefur hins vegar ekki komið upp hér á landi svo hún viti til. „Við höfum stólað á það að vatnið okkar sé mjög hreint. Hins vegar held ég að það væri mjög áhugavert að meta þetta,“ segir Hrönn en kveðst þó ekki gera sér grein fyrir hvort að slíkt sé mögulegt.

Leynist hins vegar örplast í íslenska neysluvatninu, þá séu tvær uppsprettur mögulegar. „Annars vegar að það sé að finna í grunnvatninu hjá okkur og hins vegar, þá eru plastefni notuð í lagnirnar hjá okkur. Þær geta veðrast líka og verið uppspretta fyrir plast í vatninu hjá okkur,“ segir Hrönn sem telur fulla ástæðu til að skoða málið nánar.

„Ég held að örplast sé næsta stóra umhverfisvandamál sem að við þurfum að takast á við. Plast er það rosalega viðamikið og við erum bara rétt að sjá toppinn á ísjakanum á þessu vandamáli. Þeim mun meiri upplýsingar sem við getum aflað okkur varðandi dreifingu og magn og uppsprettu þess, þeim mun betur getum við tekið á málinu. Þannig að ég held að  það sé ekki spurning að við eigum að skoða þetta hérlendis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert