„Þetta er ekki besti tíminn“

Hér má sjá hvernig lögnin mun liggja.
Hér má sjá hvernig lögnin mun liggja. Ljósmynd/Veitur

„Við viljum síst fara í svona framkvæmdir á háannatíma,“ segir Bjarni Stefánsson svæðisstjóri hjá Vegagerðinni. Veitur hefja á þriðjudaginn framkvæmdir við lagningu nýrrar vatnslagnar undir Kringlumýrarbrut, við gatnamót Miklubrautar. Búist er við miklum umferðartöfum vegna þessa en leyfi Vegagerðarinnar fyrir framkvæmdunum miðaði við að ráðist yrði í verkið í sumar.

Í tilkynningu frá Veitum segir að verulega verði þrengt að umferð um Kringlumýrarbraut næstu tvær vikurnar, eða frá 12. til 26. september. „Með nýrri lögn er rekstraröryggi vatnsveitunnar aukið og komið er til móts við aukna þörf á köldu vatni vegna þéttingar byggðar í vesturhluta borgarinnar, m.a. til brunavarna,“ segir á vef Veitna. Hafist verður handa við þverun götunnar á þriðjudag.

Mest umferð í september

Í gögnum Vegagerðarinnar má sjá að undanfarin tvö ár hefur september verið sá mánuður þar sem umferð um þrjár helstu stofnæðar höfuðborgarsvæðisins er mest. Viðmælendur mbl.is eru sammála um að einna mest mæði á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, þegar horft er til umferðar á háannatímum á höfuðborgarsvæðinu. Við gatnamótin myndast gjarnan langar raðir bæði á morgnanna og síðdegis.

Þær upplýsingar fengust frá Vegagerðinni, sem veitir heimild til framkvæmdarinnar, að á það hafi verið lögð áhersla að verkið yrði unnið að sumri til. Töf hafi hins vegar orðið á verkinu og það sé „mjög bagalegt“.

Bjarni Stefánsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, segir í samtali við mbl.is, að Vegagerðin vilji síst að framkvæmdir sem þessar séu unnar á þessum árstíma. Erfitt sé hins vegar fyrir Vegagerðina að setja sig gegn verkinu þó það hitti á þennan tíma – enda sé þetta verk sem þurfi að ráðast í. „Þetta er ekki besti tíminn.“

Framkvæmdatíminn, þar sem umferð verður skert, er áætlaður tvær vikur. Bjarni segir að menn hafi við þetta mat horft til þess þegar Miklabraut var tekin í sundur með sambærilegum hætti í fyrra.

Hér gefur að líta umferðartafir á Miklubraut. Skorað er á …
Hér gefur að líta umferðartafir á Miklubraut. Skorað er á fólk að gefa sér góðan tíma í ferðalög til og frá vinnu, næstu tvær vikurnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tafir skýra seinkunina

Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna, segir að henni sé ekki kunnugt um hvort unnið verður nótt sem dag við verkið. Hún segir að margvíslegar tafir hafi valdið því að verkið í heild hafi tafist, svo sem „leyfismál, afhending á efni frá byrgja í Frakklandi og sumarleyfi.“ Eitt og annað hafi komið til. Verið sé að endurnýja lögn sem lögð var árið 1962 og markmiðið sé að tryggja afhendingu á vatni í Vesturbæ.

Hún segir að verktakinn muni halda eins akreinum eins mikið opnum og mögulegt sé. „Við reynum að gera þetta á sem skemmstum tíma.“

Hvetja fólk til að hjóla eða ganga

Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að mestu umferðartafirnar verði iðulega fyrst á haustin, eða þar til fólk átti sig á umfangi umferðarinnar og gefi sér meiri tíma. „Þegar líður á september leitar þetta jafnvægis.“ Hann segir að bílum hafi fjölgað gífurlega á undanförnum misserum og árum og búast megi við töfum. „Þetta mun reyna á langlundargeðið. Við hvetjum fólk til að sýna þolinmæði og gefa sér tíma.“

Hann hvetur fólk til að nota tvo jafnfljóta til ferða eða reiðhjól. Hann segir að lögreglan hafi ekki skoðun á því hvenær ráðist sé í framkvæmdir sem þessa en að þeir muni bregðast við með því að hafa lögreglumenn á staðnum þegar þurfa þykir.

Betra seint en aldrei

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, segir að aðalatriði sé að fólk muni komast heilt á áfangastað. Tilgangur stofnunarinnar sé að stuðla að öryggi í umferðinni. „Þetta er vissulega ekki æskilegasti tíminn til að fara í svona stórfelldar framkvæmdir en okkar verkefni er að stuðla að umferðaröryggi. Í því felst meðal annars að sýna tillitssemi.“ Hún minnir á að hægt sé að grípa til annarra umferðarmáta, til að spara tíma og draga úr umferð, og nefnir reiðhjól og strætisvagna. Mikilvægast sé þó að sýna tillitssemi og þolinmæði. „Það er betra að komast seint á áfangastað en aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert