„Ég eignaðist þar góða vini“

Guðfreður Hjörvar hélt upp á áttræðisafmæli sitt með rjómatertum í …
Guðfreður Hjörvar hélt upp á áttræðisafmæli sitt með rjómatertum í Söngskólanum 6. september og bauð nemum og starfsfólki skólans auk náinna vina. Guðfreður er þekktur sem „hjálparhella“ skólans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var tíu ára þegar ég byrjaði að drekka,“ segir Guðfreður Hjörvar Jóhannesson, sem heldur áttræðisafmæli sitt hátíðlegt með afmælistónleikum í Langholtskirkju nú á sunnudaginn.

„Vinir mínir og vandamenn gerðu hvað þeir gátu til að ná mér upp úr því. Svo fór að mér var beint til Guðmundar Jónssonar óperusöngvara, sem tók af örlæti sínu við mér í söngtíma hjá sér. Ég var þó aldrei formlega skilgreindur sem söngnemi því það var fólkið hjá stofnuninni sem gaf mér þessa tíma. Ég hef því lengi tengst Söngskólanum nánum böndum og alltaf verið þar á sveimi því ég eignaðist þar svo góða vini. Þegar ég var fimmtugur gaf ég áfengið upp á bátinn og hef ekki snert dropa síðan.“

Sungið í söngnemasjóð

Guðfreður hefur áður efnt til afmælistónleika; fyrst á sjötugsafmæli sínu og síðan aftur þegar hann varð sjötíu og fimm ára. Í fyrra skiptið voru tónleikarnir haldnir til styrktar SÁÁ og hið seinna rann allur ágóði í styrktarsjóð Söngskólans í Reykjavík. „Ég geri ráð fyrir að þetta verði með svipuðu móti í ár,“ segir Guðfreður. „Þar sem ég á engan lögerfingja hef ég í erfðaskrá minni unnið að því að andvirði íbúðar minnar og öðrum fjármunum verði eftir minn dag varið í minningarsjóð fyrir efnilega söngnemendur. Eins og kunnugt er getur verið erfitt fyrir unga listnema að fóta sig fjárhagslega á meðan þeir ljúka námi og ég vil gera mitt til að veita þeim aðstoð, enda útskrifast sægur af hæfileikafólki úr Söngskólanum í Reykjavík.“

Margir stíga á svið

Stór hópur hæfileikafólks mun einmitt stíga á svið í Langholtskirkju á sunnudaginn og hefja upp raust sína, en þar á meðal má nefna Karlakórinn Fóstbræður undir stjórn Árna Harðarsonar, Karlakór Reykjavíkur undir stjórn Friðriks Kristinssonar og loks Karlakór Kópavogs og Óperukórinn í Reykjavík undir stjórn Garðars Cortes. Guðfreður mun einnig syngja fyrir áheyrendur og sýna hvað hann hefur lært á mörgum árum sínum í Söngskólanum þrátt fyrir að hafa aldrei verið þar „sannur“ nemi. Tónleikarnir fara fram kl. 17.00 á sunnudaginn og kostar miðinn 3.000 krónur.

Tónlistarveisla

Að sögn forsvarsmanna Söngskólans hefur Guðfreður verið „eins og grár köttur“ í skólanum um árabil og hefur óformlegan titil sem „hjálparhella“ skólans enda alltaf reiðubúinn að hjálpa nemendum og starfsmönnum jafnt innan dyra sem utan. Því er ekki að undra að starfsfólkið hafi einsett sér að gera afmælistónleikana um helgina sem glæsilegasta og reynt að laða til sín sem flest hæfileikafólk. Auk kóranna sem stíga á svið syngur Guðfreður sjálfur tvö lög. Honum fylgja á eftir söngvarar á borð við Kristin Sigmundsson, Kristínu Sveinsdóttur og Þóru Einarsdóttur. Ágóði rennur í sjóð Guðfreðs Hjörvars til styrktar efnilegum ungum söngnemendum. Langholtskirkja veitir afnot af húsnæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert