Laun Dags hækka um 150 til 200 þúsund kr.

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Laun Dags B. Eggertssonar borgarstjóra munu hér eftir taka breytingum til samræmis við launavísitölu í stað þess að taka mið af launum forsætisráðherra eins og verið hefur um áratuga skeið.

Þetta felur það í sér að laun borgarstjóra, sem eru nú um 1,5 milljónir króna, verða nálægt 1,7 milljónum króna og hækka um liðlega 10% í stað þess að hækka í rúmlega tvær milljónir, um 35%, eða um hálfa milljón á mánuði eins og úrskurður kjararáðs gerði ráð fyrir.

Borgarstjóri ákvað í nóvember í fyrra að laun hans hættu að taka breytingum í samræmi við hækkun á launum forsætisráðherra, en kveðið var á um slíkar breytingar í ráðningarsamningi borgarstjórans. Í bréfi sem hann ritaði deildarstjóra kjaradeildar borgarinnar um síðustu mánaðamót kemur fram að hann hafi ákveðið þessa breytingu í nóvember í fyrra til þess að veita Alþingi svigrúm til þess að grípa inn í niðurstöðu kjararáðs.

Afsalaði sér 500 þúsund kr.

Í bréfinu afsalar borgarstjóri sér þeirri launahækkun sem forsætisráðherra fékk og var um 500.000 krónur á mánuði og óskar eftir því að laun hans taki framvegis breytingum til samræmis við launavísitölu, rétt eins og laun borgarfulltrúa, en sú breyting var ákveðin á kjörum þeirra á fundi borgarstjórnar 4. apríl sl. „Þar var ákveðið að grunnlaun borgarfulltrúa taki framvegis breytingum til samræmis við launavísitölu. 

Upphaf viðmiðunartímabilsins var ákveðið mars 2013 og að launin yrðu uppfærð í janúar og júlí ár hvert. Breytingin sjálf var miðuð við 1. nóvember 2016,“ segir orðrétt í bréfi borgarstjóra. 

Vöktu sterk viðbrögð

„Eins og kom fram í nóvember síðastliðnum ákvað ég að þiggja ekki sömu launahækkun og forsætisráðherra, þrátt fyrir ákvæðið í ráðningarsamningi mínum um að laun borgarstjóra miðuðust við laun forsætisráðherra, vegna þess að ég vildi gefa Alþingi svigrúm til þess að grípa inn í niðurstöðu kjararáðs og endurskoða þá miklu hækkun launa æðstu ráðamanna sem vöktu sterk viðbrögð hjá fleirum en mér í samfélaginu. Af því varð ekki, og þess vegna hef ég nú skrifað kjaradeild bréfið sem þú vitnar í,“ sagði Dagur í samtali við Morgunblaðið í gær. 

Fær liðlega 10% hækkun

Spurður hvað þetta þýddi fyrir hann í krónum og aurum sagði borgarstjóri: „Kjaradeild hefur það hlutverk að reikna það nákvæmlega, en til að gefa hugmynd um það er þetta þannig að í stað þess að laun mín hækkuðu um 500 þúsund krónur á mánuði, eða um 35%, eins og laun forsætisráðherra gerðu í nóvember í fyrra, er ég með viðmiði við launavísitöluna að fá liðlega 10% hækkun, eitthvað á milli 150 og 200 þúsund króna launahækkun.“ 

Fjórum milljónum lægri

„Yfir tímabilið til loka kjörtímabilsins þýðir þetta því að laun borgarstjóra eru að minnsta kosti um fjórum milljónum króna lægri en þau ættu að vera ef viðmiðið við forsætisráðherra hefði ekki verið tekið úr sambandi. Laun mín eru þannig að hækka í samræmi við almenna launaþróun í landinu eins og laun borgarfulltrúa gerðu í apríl síðastliðnum,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert