Stefnir í metfjölda pysja í Eyjum

Þyngd pysjanna getur haft töluverð áhrif á lífslíkur.
Þyngd pysjanna getur haft töluverð áhrif á lífslíkur. Ljósmynd/Erpur Snær Hansen

Sæheimar í Vestmannaeyjum hafa vigtað 3.310 lundapysjur það sem af er hausti og vantar nú einungis rétt yfir 500 pysjur til að slá met í sögu pysj­u­eft­ir­lits­ins sem náðist árið 2015 og er 3.827. Erlendir fjölmiðlar sýna pysjunum mikinn áhuga. 

„Þetta er aðeins að minnka en það er hellingur að gerast ennþá. Ég reikna með að þetta gæti staðið fram í miðjan október,“ segir Erp­ur Snær Han­sen hjá Nátt­úru­fræðistofu Suður­lands. Hann segir að varpið hafi byrjað seint, þriðjungur þess hafi verið eftir lok júlí, og skýrist það að mestu leyti af síðbúnum vorblóma. 

Í Vest­manna­eyj­um er hefð fyr­ir því að börn komi pysj­un­um til bjarg­ar, setji þær í pappa­kassa og sleppi þeim síðan í sjó­inn næsta dag. Pysj­urn­ar, sem hafa ekki fylli­lega náð taki á flug­inu, eiga á hættu að verða kött­um, bíl­um eða mönn­um að bráð eða deyja úr hungri í bæn­um. 

Aldrei þyngri pysjur

Pysjunum hefur fjölgað síðustu þrjú ár. Þær voru 2.100 á sama tíma fyrir tveimur árum og telur Erpur að fjöldinn geti farið upp yfir 4.000. Ofan á það hafa pysjurnar aldrei verið þyngri en þyngd getur skipt töluverðu máli fyrir lífslíkur.

„Þær eru að þyngjast og það eru góðar fréttir vegna þess að það milli léttrar pysju og þungrar getur verið fimmfaldur munur á lífslíkum.“ 

Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt pysjunum mikinn áhuga í haust. Tökulið frá Bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS kom til Eyja fyrr í vikunni og von er á breska ríkisútvarpinu BBC á næstu dögum. „Það er allt í yfirsnúningi,“ segir Erpur Snær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert