Breytingar á stöðu barna í viðkvæmri stöðu

Mary og Han­iye.
Mary og Han­iye. Samsett mynd

Í tilkynningu frá þingflokki Bjartrar framtíðar kemur fram að flokkurinn muni leggja fram frumvarp um breytingu á Útlendingalögum, sem samþykkt voru árið 2016 og unnin í þverpólitískri sátt undir formennsku Óttars Proppé, formanns Bjartrar framtíðar.

Breytingartillögurnar snúa fyrst og fremst að stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Í tilkynningunni kemur fram að Útlendingalögin séu umfangsmikil löggjöf og að legið hafi fyrir frá samþykkt breytinga á þeim að lögin verði að vera lifandi plagg, sérstaklega í málaflokkum í hraðri þróun eins og málefni flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd.

„Það er að mörgu að hyggja,“ segir Nichole Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar. „Þessi mál eru og verða flókin og mikilvægt að bregðast jafnóðum við þörf fyrir skýrari ákvæði með endurskoðun laganna og málaflokksins í heild.“

Þingmenn annarra þingflokka hafa talað svipuðu máli, en Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, tjáði á Facebook síðu sinni að mikilvægt væri að láta mannúð ráða för frekar en ýtrustu laga- og reglugerðartúlkanir. Hún styður heils hugar að hin nígerísku Sunday Iserien og Joy Lucky og dóttir þeirra Mary sem og afgönsku feðginin Hanyie og Abrahim Maleki fái að halda áfram að byggja upp nýtt líf hér á landi.

Samfylkingin hefur auk þess tilkynnt að flokkurinn ætli að leggja fram frumvarp þess efnis að veita stúlk­un­um Han­iye og Mary, ásamt fjöl­skyld­um þeirra, ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert