Brottvísun feðgina hugsanlega frestað

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Embætti ríkislögreglustjóra fór þess á leit við Útlendingastofnun seint í dag að brottvísun afgönsku feðginanna, Abra­him og Hanyie Maleki, yrði frestað. Þetta staðfestir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali við mbl.is. Hún segir stofnunina ekki hafa tekið afstöðu til beiðninnar, en hún verði væntanlega tekin til skoðunar strax í fyrramálið.

Feðginin fengu þær upplýsingar á fundi hjá Útlendingastofnun í dag að þau yrðu flutt úr landi klukkan 11:30 næstkomandi fimmtudag. Samkvæmt frétt RÚV var formgalli í birtingarvottorði sem feðginunum var afhent.

Sema Erla Serdar, formaður Solar­is – hjálp­ar­sam­taka fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólks á Íslandi, fagnar fréttum af hugsanlegri frestun á brottvísum feðginanna. Hún segir forkastanleg vinnubrögð hafa verið viðhöfð í máli þeirra og telur að ekki hafi verið farið að settum verklagsreglum.

„Guði sé lof, þessi vinnubrögð hafa verið ótrúleg og óskiljanleg. Þetta er orðið eins og valdakeppni á milli yfirvalda. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessu. Það er ekkert í hendi og það er ekkert komið í gegn,“ segir Sema Erla í samtali við mbl.is skömmu eftir að hún fékk fréttirnar. Hún segir Solaris því ætla að halda sínu striki og boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan dómsmálaráðuneytið á morgun. „Við höldum áfram að mótmæla þangað til við fáum staðfestingu á því að báðar þessar stúlkur fái að vera hérna,“ segir hún og vísar þar líka til hinnar átta ára gömlu Mary sem til stendur að vísa úr landi á næstu dögum, ásamt foreldrum sínum.

Sema segir það enga tilviljun að feðginin hafi verið boðuð í flýti á fund Útlendingastofnunar í morgun. „Þau voru boðuð á þennan fund yfirvalda í morgun með engum fyrirvara, þar sem þeim var tilkynnt að þau yrðu send úr landi á fimmtudagsmorgun. Þetta voru mjög einkennileg vinnubrögð og virtust ekki vera nein tilviljun. Þetta virtust vera viðbrögð yfirvalda við þeirri samkennd og samstöðu sem ríkir í garð þessara stúlkna og rímar við það sem var haft eftir ráðherra í fréttum helgarinnar. Alveg forkastanlegt,“ segir Sema og vísar þar til ummæla sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra lét falla í viðtali við RÚV um helgina. Hún sagði ekki koma til greina að endurskoða mál sem dúkkuðu tilviljanakennt upp í umræðunni.

Samfylkingin hyggst leggja fram frumvarp um íslenskan ríkisborgararétt fyrir stúlkurnar og fjölskyldur þeirra þegar þing kemur saman og Sema telur það líka hafa haft áhrif. „Það verður að teljast líklegt að frumvarpið verði samþykkt í þinginu. Þannig maður upplifði þetta sem viðbrögð yfirvalda við því. Það ætti að losna við þessar fjölskyldur eins fljótt og hægt væri. Þessi vinnubrögð ríma ekki við neitt sem við höfum kynnst. Það er rosalega stutt síðan þau fengu niðurstöðu. Reynsla okkar er sú að þetta tekur lengri tíma. Þarna var augljóslega verið að grípa inn í og ekki verið að fara að settum verklagsreglum, það er allavega mín upplifun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert