Fjöldi óþarfra aðgerða gerðar á börnum?

Landlæknir segir margt benda til oflækninga hér á landi, líka …
Landlæknir segir margt benda til oflækninga hér á landi, líka þegar kemur að börnum. mbl.is/KRISTINN INGVARSSON

Vísbendingar eru um það hér á landi að gerðar séu óþarfa rörísetningar og hálskirtlatökur hjá ungum börnum. Það kemur fram í niðurstöðum könnunar sem landlæknisembættið framkvæmdi á tíðni aðgerða í einkarekinni læknisþjónustu, og kynntar voru í síðustu viku.

Árið 2011 var farið að bólusetja börn gegn pneumókokkum, en algengustu sýkingar af völdum þeirra eru bráðar og þrálátar miðeyrnabólgur, kinnholusýkingar og lungnabólgur hjá ungum börnum. Fram kemur í skýrslu landlæknis að rannsókn sem gerð var á Barnaspítala Hringsins hafi leitt í ljós marktæka fækkun á komum barna á Barnaspítalann vegna eyrnabólgu eftir að bólusetning hófst. Jafnframt hefði sýklalyfjaónæmi minnkað og þörf fyrir viss sýklalyf sem notuð eru við eyrnabólgu minnkað.

Það hefði mátt ætla að í kjölfarið hefði tíðni rörísetninga hjá börnum lækkað, en það hefur ekki orðið raunin. Niðurstöður könnunarinnar sýna að slíkum aðgerðum hefur frekar fjölgað eftir að bólusetning hófst. Árið 2011 voru gerðar 2.104 aðgerðir af sjálfstætt starfandi sérfæðingum þar sem rör voru sett í eyru barna á aldrinum 0 til 3 ára, eða 11.043 á hverja 100 þúsund íbúa. Árið 2016 voru aðgerðirnar 2.075, eða 12.099 á hverja 100 þúsund íbúa. Er því um fjölgun aðgerða að ræða. Rúmlega 80 prósent af slíkum aðgerðum eru gerðar af sjálfstætt starfandi sérfræðilæknum og hefur hlutfallið farið hækkandi síðustu ár.

Í Svíþjóð hafa hins vegar rörísetningar og ástungur á hljómhimnur minnkað marktækt eftir að bólusetning við pneumókokkum hófst þar í landi.

Kerfið hvetur til fleiri aðgerða

Birgir Jakobsson landlæknir segir afar sérstakt að aðgerðunum hafi fjölgað eftir að bólusetningar hófust og bendir á að það sé ekki í takt við það sem hafi gerst í nágrannalöndunum. „Það er verulega skrýtið jú, vegna þess að það samband hefur sést í Svíþjóð, þar sem bólusetningar voru innleiddar á svipuðum tíma. Við sjáum það að hér að nánast er um fjölgun að ræða, en ekki fækkun eins og maður hefði búist við. Það gildir eiginlega bæði um rörísetningar og hálskirtlatökur,“ segir Birgir, en hann telur greiðslukerfið vera orsakavaldinn. „Við erum með mjög hvatakennt greiðslukerfi fyrir sérfræðilækna sem eru að vinna á einkareknum stofum úti í bæ. Það hvetur mjög til aðgerða. Hvatningin er fjöldi heimsókna og fjöldi aðgerða og þá fær maður það. Maður fær yfirleitt það sem maður biður um.“

Hann vill ekki fullyrða að verið sé að gera óþarfa aðgerðir á börnum. Hins vegar séu vísbendingar um það. „Það er svo sem erfitt að draga ályktanir alveg af þessu, en við verðum við að spyrja okkur þær spurningar hvort ekki sé um ákveðnar tegundir af oflækninum að ræða. Að við séum að gera óþarfa aðgerðir á börnum.“

Birgir bendir á að þetta eigi við um fleiri tegundir aðgerða, eins og liðspeglanir á hnjám. „Þar erum við að gera skelfilega mikið af aðgerðum miðað við Norðmenn og Svía,“ segir hann, en í skýrslu landlæknis kemur fram að ýmislegt bendi til þess að liðspeglun á hné, með tilheyrandi liðhreinsun, hjá einstaklingum 50 ára eldri sé árangurslaus og geti jafnvel flýtt fyrir liðskiptaaðgerð.

Of fáar nauðsynlegar aðgerðir í opinbera kerfinu

Tilefni könnunar landlæknis á tíðni ákveðinna aðgerða sem gerðar eru af sjálfstætt starfandi sérfræðingum, var meðal annars skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey sem birt var haustið 2016, þar sem fram kom að tíðni hálskirtlataka á Íslandi væri um þrefalt hærri en í nágrannalöndunum. Nánast allar aðgerðirnar eru gerðar af sérfræðilæknum á stofu og er greitt fyrir hverja aðgerð samkvæmt rammasamningi Sjúkratrykkinga Íslands. Þá hefur á þessu ári birst greinaflokkur í tímaritinu The Lanchet um  „rétta heilbrigðisþjónustu“ og hvernig beri að forðast ofnotkun á læknisverkum. Þótti því tilefni til að gera könnun á tíðni nokkurra aðgerða og þær aðgerðir sem urðu fyrir valinu voru: ristilspeglanir, speglanir á hnjáliðum, rörísetningar hjá börnum og hálskirtlatökur.

Birgir segir niðurstöður könnunarinnar benda til þess að eitthvað sé að núverandi kerfi og að taka þurfi á málum. „Mér finnst full ástæða til að ræða þetta mál og reyna að koma til botns í því hvort við viljum hafa þetta svona. Á sama tíma er verið að gera of lítið af aðgerðum í opinbera geiranum. Aðgerðum sem er þörf á að gera, eins og mjaðma- og hnjáaðgerðum. Mér finnst við raunverulega vera að forgangsraða vitlaust.“ 

Hann segir mikilvægt að vita hver staðan er og þess vegna hafi þessi könnunin verið gerð. Það sé fyrsta skrefið. „Í öðru lagi, þá getum við í samtali við lækna, og það höfum við reynt, að fá þá til að skoða þessar tölur. Hvort ekki sé ástæða til að minnka þessa tíðni aðgerða. Í þriðja lagi held ég að nauðsynlegt sé að heilbrigðisyfirvöld athugi hvað þarf að gera í heilbrigðiskerfinu, í greiðslukerfi opinberrar og einkarekinnar þjónustu. Samræma þetta tvennt svo sömu skilyrði gildi fyrir sambærilega þjónustu, óháð því hvort hún er í opinbera eða einkarekna kerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert