2% aukning til samgöngumála

Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun.
Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heildarfjárheimild til samgöngumála fyrir árið 2018 er áætluð tæpir 34,4 milljarðar króna og hækkar um 766 milljónir frá gildandi fjárlögum, eða sem nemur 2% hækkun. Hækkun framlaga vegna Dýrafjarðarganga nemur 2 milljörðum en á móti kemur lækkun vegna verkloka við Norðfjarðargöng.

Í fjárlagafrumvarpi sem fjár­málaráðherra kynnti nú í morg­un kemur fram að framlag til þjónustu á vegakerfinu hækki um samtals 131 milljónir króna. Hins vegar minnkar framlag til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu um 112 milljónir króna.

Framlag til Vestmannaeyjaferju lækkar um 300 milljónir króna frá gildandi fjárlögum vegna niðurfellingar tímabundins framlags. Gert er ráð fyrir að framlagið sem eftir stendur nægi fyrir umsamdri lokagreiðslu 2018 vegna nýrrar ferju.

241 milljón verður sett aukalega í almenningssamgöngur og er í frumvarpinu sögð þörf á að bregðast við uppsöfnuðum halla, meðal annars vegna útgjalda sem hafi fallið ti vegna Landeyjahafnar og Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.

Helstu framkvæmdir framundan eru Vestmannaeyjaferja, Berufjarðarbotn og Dýrafjarðargöng en hækkun framlaga vegna Dýrafjarðaganga nemur 2 milljörðum. Á móti vega til lækkunar framlög til framkvæmda við Norðfjarðargöng en gert er ráð fyrir að þeim ljúki á yfirstandandi ári.

Spenna í framkvæmdum

Misræmi er á milli þingsályktunar um samgönguáætlun 2015-2018 sem samþykkt var á Alþingi í október 2016 og fjárlagafrumvarpsins. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra segir að gert hafi verið ráð fyrir of miklum útgjöldum í samgönguáætlun.

„Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir mun meiri peningum til samgöngumála heldur en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun. Það gengur ekki upp, einhvern veginn þarf að brúa bilið. Síðan hefur verið mikil spenna í framkvæmdum og nú er verið að ráðast í uppbyggingu Landspítalans þannig að við viljum ekki fara of geyst. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert