91% samsköttunar verður körlum í hag

Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun.
Benedikt Jóhannsson fjármálaráðherra á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áætlað er að 91% af þeim skattaafslætti sem hlýst af samsköttun á árinu 2018 nýtist til hækkunar á ráðstöfunartekjum karla. Þá hafa kynin ólíka sýn á afleiðingar jarðgangagerðar.  

Þetta kem­ur fram í fjár­laga­frum­varpi sem fjár­málaráðherra kynnti nú í morg­un. Þar var fjallað um kynjaða fjárlagagerð sem hefur verið lögfest með lögum sem tóku gildi í ársbyrjun 2016.  

Fjármála- og efnahagsráðuneytið greindi umfang samnýtingar skattþrepa eftir kyni fyrir tekjuárin 2010 til 2015. Í ljós kom að um 93% af upphæð skattaafsláttarins fyrir tímabilið nýttist til hækkunar ráðstöfunartekna karla.

Fyrir árið 2018 er metið að skattaafslátturinn verði um 2,7 milljarðar króna vegna úrræðisins, eða 800 milljónum meira en ætla má að hann hefði verið ef þriggja þrepa tekjuskattskerfi væri enn við lýði. Áætlað er að 91% heildarupphæðar afsláttarins nýtist til hækkunar ráðstöfunartekna karla.

Spurður um fleiri dæmi um kynjaða greiningu á fjárlögum segir Benedikt Jóhannesson, fjármála -og efnahagsráðherra að ólík sjónarmið séu um jarðgöng. 

„Við skoðuðum áhrif jarðgangagerðar á kynin. Karla voru ánægðir með jarðgöng vegna þess að þetta stytti ferðatíma en konur sáu fram á að ýmis þjónusta sem hafði verið í göngufjarlægð myndi færast til annars sveitarfélags. Þær höfðu áhyggjur af því að skólinn, bankinn, búðir og pósthúsið myndu færast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert