Þingsetningarathöfnin er hafin

Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gengur við hlið frú …
Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, gengur við hlið frú Agnesar Sigurðardóttur biskups Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingsetningarathöfnin hófst kl. 13.30 í dag með guðþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn gengu fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu. Séra Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli, prédikaði og séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, þjónaði fyrir altari ásamt biskupi Íslands, frú Agnesi M. Sigurðardóttur.

Hægt er að fylgjast með athöfninni á vef Alþingis.

Að guðsþjónustu lokinni gengu forseti Íslands, biskup Íslands, forseti Alþingis, ráðherrar, alþingismenn og aðrir gestir til þinghússins.

Um tvö leytið hefst bein útsending á vef Alþingis þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setur Alþingi, 147. löggjafarþing, og að því loknu flytur forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir ávarp. Strengjakvartett leikur tónlist við þingsetningarathöfnina. Strengjakvartettinn skipa Auður Hafsteinsdóttir og Gróa Margrét Valdimarsdóttir fiðlur, Þórunn Ósk Marinósdóttir víóla og Bryndís Halla Gylfadóttir selló.

Siðmennt bauð þingmönnum til athafnar í tilefni setningar Alþingis 12. september kl. 12:30–13:00 í Iðnó. Að venju var flutt stutt erindi í tilefni dagsins en síðan spjallað um lífið og tilveruna! Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, flutti erindið að þessu sinni sem kallast „Löggjafarþjónustan“ þar sem hann veltir fyrir sér þessu mikilsverða starfi, þingmennskunni, inntaki þess og ásýnd. 

Þetta er í tíunda skiptið sem Siðmennt býður þingmönnum upp á valkost við messu í Dómkirkjunni fyrir setningu Alþingis ár hvert.

Þingmenn ganga til guðþjónustu í Dómkirkjunni.
Þingmenn ganga til guðþjónustu í Dómkirkjunni. mbl.is/Kristinn Magnússon
Forsetinn kom í fylgd lögreglu við þingsetningu.
Forsetinn kom í fylgd lögreglu við þingsetningu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert