Bitnar einkum á landsbyggðarfólki

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stórhækkun skatta á olíur, bensín og hækkun þungaskatts bitnar beint á því fólki sem þarf að sækja lengst þjónustu, hvort heldur heilsugæslu, menntun, aðföng til heimils eða atvinnureksturs. Þetta eru því beinir fjarlægðaskattar á íbúa landsins.

Þetta segir Bjarni Jónsson, varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og sveitarstjórnarmaður í Skagafirði, í grein á vefsíðu héraðsfréttablaðsins Feykis þar sem hann ræðir um skattahækkanir í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Bjarni segir að á sama tíma leggi stjórnvöld af eða skerði margvíslega opinbera þjónustu út um hinar dreifðu byggðir. „Má þar nefna heilbrigðisþjónustuna  sem íbúar á landsbyggðinni þurfa í æ ríkara mæli að sækja til Reykjavíkur með ærinni fyrirhöfn og kostnaði.“

Stjórnvöld séu með þessu með beinum hætti að skerða lífskjör á landsbyggðinni. Hækkunin á eldsneytissköttum verði ekki einu sinni nýtt til samgöngumála. Málaflokks sem hafi verið sveltur lengi. Þess í stað sé boðað að samgönguverkefni verði fjármögnuð með vegatollum.

„Sama má segja um fyrirtæki sem starfa á landsbyggðinni. Enn verður aukið á vanda sauðfjárbænda sem til viðbótar við lægra afurðaverð munu borga meira fyrir olíuna sem þarf til framleiðslunnar. Með hækkuninni munu stjórnvöld ná meiru af bændum en þau hyggjast verja til að koma til móts við lækkað afurðaverð og alvarlegan vanda í sauðfjárrækt.“

Skattkerfið stuðli þannig að byggðaröskun en eigi þvert á móti að tryggja jafnrétti óháð búsetu. „Nýir skattar sem svo sérstaklega er beint gegn íbúum og búsetu á landsbyggðinni taka engu tali nema til komi beinar mótvægisaðgerðir sem tryggja um leið byggðajafnrétti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert