„Ef hann fær hjálp þá fæ ég frið“

Eva Riley vonast til að maðurinn fái þá hjálp sem …
Eva Riley vonast til að maðurinn fái þá hjálp sem hann þurfi. Eva Riley

Ung stúlka sem hefur verið áreitt af manni í gegnum samfélagsmiðla um árabil mætti í skýrslutöku til lögreglu í morgun vegna málsins og segir lögregluna vera að gera allt sem hún getur.

Málið vakti athygli eftir að Eva Riley, sem er virk á samfélagsmiðlum, birti myndband af sér á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagði frá áreitinu sem hefur staðið yfir síðan árið 2013. „Þetta byrjaði rólega, hann var bara að spyrja „Hvað segirðu?“ inni á sinni eigin Facebook-síðu en ég svaraði aldrei. Svo urðu þetta ástarjátningar og hann hélt að við værum trúlofuð. Svo fór þetta út í hótanir og að ég ætti að vera að hóta honum með einhverjum mönnum. Hann byrjaði að hóta mömmu minni,“ sagði Eva í samtali við mbl.is.

Eva kærði manninn til lögreglu árið 2014 en dró kæruna til baka vegna þess að systir hans sagði henni að hann væri kominn inn á geðdeild. „Ég hef verið í sambandi við systur hans og hún er búin að hjálpa mér allan tímann. Ég dró kæruna til baka af því hann var að fá hjálpina sem hann þurfti en svo kom hann út og hélt bara áfram.“

Að sögn Evu bjó maðurinn til fjölda falskra aðganga á samfélagsmiðlum til að halda áreitinu áfram eftir að hún hafði eytt honum. Hún segir hann hafa stofnað yfir 30 mismunandi aðganga á Snapchat auk þess sem hann notaði myndir af öðrum mönnum til að búa til nýja Facebook aðganga. Þó lét hann hana alltaf strax vita að þetta væri hann.

Lögregla hvetur brotaþola til að leita til sín

„En hvað getur lögreglan gert við svona veikan einstakling?“ spyr Eva. „Hann þarf að fá hjálp frá lækni og vera á lyfjum. Ég vona bara að hann fái hjálp. Ef hann fær hjálp þá fæ ég frið.“

Eva segir að í kjölfar þess að hún hafi deilt reynslu sinni hafi margir sent henni eigin reynslusögur og þakkað henni fyrir að hafa vakið athygli á þessu. „Það er greinilega mjög mikið um þetta en það er náttúrulega ekkert hægt að gera.“

Skjáskot


Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að í tilfellum sem þessum geti brotaþoli óskað eftir nálgunarbanni og að lögreglan geti auk þess farið fram á nálgunarbann að eigin frumkvæði. „Ef rökstuddur grunur er til staðar um ítrekuð brot þá er hægt að fara fram á gæsluvarðhald að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.“

Um þá staðreynd að brotaþolum í málum sem þessum finnist fá úrræði í boði segir hún: „Við höfum verið að taka á þessum málum. Í einhverjum tilvikum þar sem áreiti hefur staðið yfir í tiltekið tímabil og lögregla hefur lítið aðhafst þá kunna kannski að vera á því einhverjar skýringar en það þarf að skoða hvert mál sérstaklega. En við höfum þessi úrræði og við reynum að bregðast við þegar brotaþoli leitar til okkar og við viljum að brotaþoli leiti til okkar og því fyrr því betra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert