„Þetta eru okkar gersemar“

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Björt Ólafsdóttir tók við hlutverki umhverfis- og auðlindaráðherra setti hún sér tvö markmið, að grípa til aðgerða í loftslagsmálum og að vernda víðáttu ósnortinnar náttúru á miðhálendi Íslands. Þetta kom fram í máli Bjartar í ræðu hennar á Alþingi í kvöld.

Stærsta skrefið í þágu aðgerða í loftslagsmálum hefur þegar verið stigið að sögn Bjartar. „Það verða ekki gerðir ívilnanasamningar við mengandi stóriðju í þessari ríkisstjórn eða í hvaða ríkisstjórn sem Björt framtíð mun eiga aðild að,“ sagði Björt.

Á næstu mánuðum verði stigið annað stórt skref í þessum efnum með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem umhverfisráðherra mun leiða ásamt forsætisráðherra. „Aðgerðaáætlunin er hornsteinn í að horfa til lengri framtíðar þar sem við höfum alla burði til að verða kolefnishlutlaust land,“ sagði Björt.

„Þetta verðum við að varðveita“

Vék hún máli sínu næst að sínu seinna markmiði er varðar verndun víðerna og ósnortna náttúru landsins. „Þetta eru okkar gersemar,“ sagði Björt. „Þær finnast ekki annars staðar í heiminum á þeim mælikvarða sem við þekkjum.“

Á miðhálendinu megi finna staði þar sem maður upplifi eins og að þar hafi ekki nokkur annar stigið niður fæti. „Þetta er upplifun sem fáir staðir annars staðar í heiminum gefa. Og þetta vita ferðamennirnir, og þess vegna koma þeir hingað.  Þetta vita bændurnir sem sækja fé sitt á fjall á hverju hausti, þetta vita heimamenn. Þetta verðum við að varðveita,“ sagði Björt.

Hún segir vinnuna í átt að þessum markmiðum hafa gengið vel undanfarna átta mánuði, eða frá því að hún tók til starfa sem umhverfisráðherra.

Málefnin stærri og mikilvægari en flokkurinn

„Björt framtíð er lítill flokkur og kannski verður hann ekki til staðar um ókomin ár, kannski verður hann risastór,“ sagði Björt síðar í ræðunni. Það skipti hins vegar ekki öllu máli hvort flokkurinn lifi áfram heldur eru það málefnin sem eiga að ráða för að sögn Bjartar.

„Ég vil helst að allir þingmenn og ráðherrar geri sig breiða um náttúru og umhverfi okkar og setji sér og sínum flokkum háleit markmið þar um,“ sagði Björt.

Fagnaði hún því sérstaklega að þingmenn annarra flokka á Alþingi hefðu snúið af þeirri braut að vilja greiða leið fyrirtækja er hyggja á uppbyggingu mengandi stóriðju hér á landi. „Alveg eins og íbúar Reykjanesbæjar vita manna best höfum við því miður ekki enn kvatt þetta vandamál þrátt fyrir góðar fyrirætlanir,“ sagði Björt.

Lauk hún máli sínu með því að nefna málefni innflytjenda og benti á að nú lægi fyrir frumvarp Bjartrar framtíðar sem skilgreini betur viðkvæma stöðu þeirra barna sem hingað leita í ósk um alþjóðlega vernd að því er fram kom í máli ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert