HÍ í hópi 250 bestu háskóla heims

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands er í hópi 250 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda samkvæmt nýjum lista Times Higher Education University Rankings sem birtur var í dag og tekur sérstaklega til fræðasviða háskóla. Niðurstaðan undirstrikar bæði að hugvísindi við Háskóla Íslands eru mjög sterk í alþjóðlegum samanburði og alhliða styrk Háskóla Íslands á helstu fræðasviðum. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

„Þessi niðurstaða er okkur hugvísindafólki gríðarleg hvatning því að Háskóli Íslands hefur lykilhlutverki að gegna við rannsóknir og kennslu á hinum ýmsu sviðum íslenskrar menningar og tengslum hennar við umheiminn. Okkur hefur lengi verið ljóst mikilvægi skólans á heimavelli en niðurstaða Times Higher Education staðfestir sterka stöðu hans á alþjóðlegum vettvangi. Það mun örugglega nýtast okkur vel við þróun náms og rannsókna við Hugvísindasvið í framtíðinni.“ Þetta er haft eftir Guðmundi Hálfdánarsyni, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, í tilkynningu. 

Times Higher Education birtir nú í fyrsta sinn lista yfir 400 bestu háskóla heims á sviði hugvísinda en tímaritið hefur hingað til aðeins birt lista yfir þá hundrað bestu. Matið nær til allra helstu fræðigreina hugvísinda, þ.e.  tungumála, bókmennta, málvísinda, sagnfræði, fornleifafræði, heimspeki, guðfræði, arkitektúrs og ýmissa listgreina. Samkvæmt Times Higher Education raðast Háskólinn í sæti 201-250 á þessum sviðum.

Guðmundur Hálfdanarson forseti Hugvísindasviðs.
Guðmundur Hálfdanarson forseti Hugvísindasviðs. Ljósmynd/Háskóli Íslands

„Hugvísindin eru afar mikilvæg í starfi Háskóla Íslands og hafa verið frá upphafi. Mannauður Háskóla Íslands er mikill og skólinn hefur markað sér stefnu um að vera í fremstu röð. Það er því afar ánægjulegt að sjá þennan frábæra árangur hugvísindafólks í Háskóla Íslands staðfestan á lista Times Higher Education.  Ég óska öllu starfsfólki og stúdentum Háskóla Íslands til hamingju með þennan frábæra árangur,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, einnig í tilkynningu. 

Times Higher Education birtir einnig árlega lista yfir öflugustu háskóla heims á átta fræðasviðum, á sviði hugvísinda, lífvísinda, náttúruvísinda, verkfræði og tækni, tölvunarfræði, félagsvísinda, viðskipta og hagfræði og loks á sviði læknisfræði og lýðheilsuvísinda. Við mat á gæðum einstakra fræðasviða er horft til sömu þátta og við mat á háskólum í heild, þ.e. rannsóknastarfs, áhrifa rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert