„Hvert sjálfsvíg er ósigur fyrir samfélagið“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Golli

„Það er margt gott á Íslandi. Hagtölur eru margar hverjar jákvæðar, atvinnuleysi í sögulegu lágmarki og trekk í trekk sýna alþjóðlegar kannanir að íslenskt samfélag er í fremstu röð á hinum og þessum sviðum. En það þýðir ekki að allt sé fullkomið. Síður en svo. Margt þarf að bæta.“

Þetta segir Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, í ræðu sinni á alþingi í kvöld í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra. Einna mesta áherslu í ræðu sinni lagði Óttarr á mikilvægi geðheilbrigðismála.

Vitnaði Óttarr í Rúnar heitinn Júlíusson og sagði „bullandi sóknarfæri“ vera falið í því að axla ábyrgð um hann þakkaði fyrir það traust sem honum hafi verið sýnt.

Óttarr fór víða í ræðu sinni en í upphafi hennar vakti hann meðal annars máls á lögum um uppreist æru sem hann segir úrelt. „Æra er ekki lengur nokkuð sem opinberir aðilar úthluta eða stjórna hafi það nokkurn tímann verið þannig. Það á að afnema þessar reglur,“ sagði Óttarr. Jafnframt vakti hann máls á nauðsyn þess að laga nýsamþykkt lög um útlendinga.

Fagnar hvatningu forseta um endurskoðun stjórnarskrár

„Við eigum að taka fagnandi hvatningu forseta Íslands um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þessi mál eru stærri en nokkrir flokkadrættir. Það er kappsmál að við sameinumst um slík mál, allir þingmenn. Það er ekki eins og við séum af sitthvorri dýrategundinni,“ sagði Óttarr.

Hvatti hann þingheim til að sýna hugrekki og vinna saman að því að byggja upp til langs tíma og byggja undir stöðugleika.

Ekki bara „einhver geimvísindi“

„Stóra verkefnið er framtíðin og ég er ekki bara að tala um einhver geimvísindi. Samfélag framtíðarinnar einkennist ekki síst af alls konar tækifærum. Samfélagi þar sem fólk fær jafnvel að ráða hvað það heitir sjálft. Þar sem allir hafa tækifæri til náms, vinnu og þátttöku burtséð frá uppruna, kyni, heilsu eða heilsubresti,“ sagði Óttarr.

Það sé ríkt einkenni íslensks samfélags hér sé fólki ekki sama um hvort annað. „Samkennd og samvinna þegar vandamál steðja að,“ sagði Óttarr meðal annars.

Hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur“

„Ég legg ríka áherslu á geðheilbrigðismál sem heilbrigðisráðherra. Það að eiga bjarta framtíð felst ekki bara í hagsæld, atvinnuöryggi og þvíumlíku. Hún felst ekki síður í hreinni náttúru, mannvænu samfélagi  og umhverfi sem hefur faðminn opin,“ sagði Óttarr.

Kvaðst hann vilja efla fjölbreytt úrræði meðal annars við barna- og unglingageðdeild og sterkari heilsugæslu. Þá minntist Óttarr þess að síðastliðinn sunnudag var alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna.

„Það var mér dýrmætt að fá að taka þátt í kyrrðarstund í dómkirkjunni og öðrum viðburðum. Hvert einasta sjálfsvíg er harmleikur. Hvert sjálfsvíg er ósigur fyrir samfélagið, ósigur fyrir okkur öll. Það er merki um að það hafi mistekist að halda utan um einstakling sem þurfti á því að halda. Við getum aldrei samþykkt að það sé eðlilegt eða óumflýjanlegt,“ sagði Óttarr sem kvaðst vilja gera enn betur.

Undirbúningur nýs spítala tekið of langan tíma

Vék ráðherra næst máli sínu að byggingu meðferðakjarna nýs Landspítala sem sé stærsta einstaka verkefni ð í heilbrigðisþjónustu á Íslandi í marga áratugi. Með byggingu nýs spítala rætist draumur um bætta aðstöðu að sögn Óttars. „Þetta er risaverkefni sem við höfum undirbúið lengi, kannski allt of lengi. Það er mikil ábyrgð að halda því til streitu.“

Þá vakti ráðherrann máls á nýju greiðsluþátttökukerfi sem tók gildi fyrr á þessu ári sem á að hafa það að markmiði að létta undir með þeim er standa hvað höllustum fæti.

„Margt er gott en það er alltaf hægt að gera betur. Við þurfum að halda boltanum á lofti í verkefnum dagsins en líka um leið að hafa auðmýkt og hugrekki til að hafa augun á framtíðinni. Því það er hún sem skiptir mestu máli. Alþingismenn. Við erum ekki bara við sjálf. Við erum fulltrúar fólksins sem kaus okkur,“ sagði Óttarr að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert