Milljónir hurfu úr miðasölu Hörpu

Hljómsveitin Sigur Rós heldur ferna tónleika í Hörpu í lok …
Hljómsveitin Sigur Rós heldur ferna tónleika í Hörpu í lok árs og þeim samhliða er haldin hátíðin Norður og niður sem mun hýsa tónlistarviðburði, innsetningar, dans, kvikmyndasýningar og óvæntar uppákomur vina og samverkafólks Sigur Rósar í gegnum tíðina. mbl/ Eggert Jóhannesson

Tugir milljóna úr miðasölu fyrirhugaðrar tónleikaraðar hljómsveitarinnar Sigur Rósar í Hörpu, eru horfnir að því er greint er frá í Fréttablaðinu í dag. Segir blaðið tónleikahaldara, einstakling sem unnið hafi náið með hljómsveitinni um árabil, hafa fengið 35 milljóna króna fyrirframgreiðslu af miðasölu tónleikanna hjá Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu.

„Þeim peningum virðist tónleikahaldarinn síðan hafa ráðstafað í annað sem er viðburðinum og hljómsveitinni með öllu óviðkomandi,“ segir í blaðinu sem hefur eftir Georg Holm, bassaleikara hljómsveitarinnar, að ákveðið vandamál hafi komið upp en unnið sé að því að leysa það. Forstjóri Hörpu segir  ófrávíkjanlega reglu að ræða ekki einstaka viðskipti eða viðburði.

Tónleikarnir ekki það sama og Norður og niður

Kári Sturluson tónleikahaldari, sem hefur starfað að hinum ýmsu verkefnum með Sigur Rós frá 2005, sendi frá sér yfirlýsingu nú í morgun þar sem hann segir ekki mega rugla tónleikum Sigur Rósar í Eldborg, sem hann beri ábyrgðina á, við hátíðina „Norður og niður“ sem á að fara fram samhliða tónleikunum og sem hann hafi ekki á sinni könnu.

„Undirritaður er annars vegar með samkomulag við hljómsveitina um tónleikana og hins vegar samkomulag við Hörpu um leigu á húsnæði, tækjum, miðasölu og mannskap vegna tónleikana. Skyldur aðila vegna tónleikanna eru skýrar og hef ég staðið við minn hlut þar og mun gera svo áfram. Vænti ég þess að aðrir aðilar samkomulagsins geri slíkt hið sama,“  segir í yfirlýsingu Kára.

Fernum tónleikum Sigur Rósar í Eldborg ber ekki að rugla saman við hátíðina „Norður og niður“ sem á að fara fram samhliða tónleikunum en sem sjálfstætt mengi í framkvæmd og sölu. Undirritaður hóf það verkefni með hljómsveitinni en ekki náðist sátt um útfærsluna á því og því var annar aðili fenginn að því verkefni sem slíku.“  

Uppfært: kl. 10.56

Samkvæmt upplýsingum frá Senu sem hefur tekið yfir umsjón með Norður og Niður þá er miðasala á þann viðburð enn ekki hafin, en til stendur að hún hefjist á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert