Óttast að áætlanir standist ekki

Birkir Jón Jónsson.
Birkir Jón Jónsson. mbl.is/aðsent

„Ég hef ekki trú á því að sú kostnaðaráætlun sem fyrir liggur standist,“ segir Birkir Jón Jónsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi. Bæjarstjórn Kópavogsbæjar samþykkti í gær tillögu að samstarfssamningi milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Fluglestarinnar-þróunarfélags ehf. vegna hraðlestar til og frá Keflavíkurflugvelli.

Tillagan var samþykkt með átta atkvæðum gegn einu atkvæði Birkis Jóns. Tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins af fimm, Guðmundur Gísli Geirdal og Karen E. Halldórsdóttir, sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Kostnaður falli á skattgreiðendur

Tilvitnunin í Birki Jón er úr bókun sem hann lagði fram við afgreiðslu málsins. Í henni segir hann að hann telji ekki rétt að bæjaryfirvöld í Kópavogi leggi blessun sína yfir framhald verkefnisins. Hann er efins um að kostnaðaráætlun standi, „sérstaklega ef mið er tekið af áætluðum kostnaði við Borgarlínuverkefnið.“

Hann segir að hætta sé á að skattgreiðendur muni á endanum sitja uppi með kostnað ef áætlanir gangi ekki eftir. Í því samhengi vísar hann til nýlegra fregna af Vaðlaheiðargöngum.

Þá nefnir hann að tækniframfarir, svo sem sjálfkeyrandi bílar, muni valda byltingum í almenningssamgöngum og rýra mikilvægi verkefnisins. „Að auki hefur komið fram að umtalsvert dýrara verður að nýta sér fluglestina en t.d. flugrútuna.“

Birkir Jón segir ljós að verkefnið muni fela í sér heilmikið rask fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins. Bora þurfi rannsóknarholur með nokkur hundruð metra millibili auk þess sem heilmikil skipulagsvinna bíði starfsmanna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar þróunarfélags.
Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar þróunarfélags. mbl.is/Ófeigur

Sveitarfélögin bera ekki kostnað

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri verkefnisins, sagði í aðsendri grein sem birt var á Vísi á dögunum, að samningurinn við sveitarfélögin fjallaði um samstarf í skipulagsmálum, en ekki þátttöku í kostnaði. „Mikil samstaða hefur verið innan þeirra sveitarstjórna sem þegar hafa afgreitt samninginn um afgreiðslu hans, enda bera sveitarfélögin ekki kostnað af þeirri þróunar-, rannsóknar- og skipulagsvinnu sem framundan er, heldur þróunarfélagið. Sveitarfélögin bera ekki áhættu eða kostnað af verkefninu, hvorki undirbúningi þess, framkvæmd né rekstri,“ skrifaði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert