Sagt að vera þakklátt fyrir 20 þúsund

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, í kvöld. mbl.is/Eggert

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í ræðu sinni á Alþingi í kvöld, þar sem umræður fara fram um stefnuræðu forsætisráðherra. Með því væri í raun verið að svipta fólk réttlætinu. „Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?“ spurði Katrín.

Í tengslum við réttlætið, sem henni var tíðrætt um í ræðu sinni, kom hún einnig inn á málefni flóttafólks. „Getum við sagt að samfélag þar sem 36 börnum er vísað úr landi – talsvert fleirum en fá dvalarleyfi – sé réttlátt?“ spurði hún jafnframt.

„Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið og þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Og að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið – eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.“

Katrín sagði áætlanir ríkistjórnarinnar ekki gera ráð fyrir bættum kjörum aldraðra og öryrkja, þvert á móti. „Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217 þúsund krónur á mánuði. Lægstu laun á Íslandi duga ekki til framfærslu, þau standa enn í 280 þúsund krónum. Og fólk á lægstu launum er beðið um að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið.“

Hún sagði að þegar fátæku fólki væri sagt að bíða eftir réttlætinu þá væri í raun verið að neita því um réttlæti. Stjórnmálamenn mættu aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja biðina eftir réttlæti. „Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni. Þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“

„Réttlætið verður því miður að bíða“

Katrín sagði þetta líka eiga við í málefnum flóttafólks sem hingað leitaði „Talsvert fleiri börnum er vísað frá Íslandi en fá hér hæli. Börnum sem alveg örugglega hafa haft lítið val um örlög sín.  Þau eru send héðan til landa sem tölvan segir að séu örugg eða hafa meiri reynslu í því að taka á móti fólki á flótta. Gildir þá einu hvað börnin sjálf hafa að segja. Stjórnmálamenn vísa í úrelta Dyflinnarreglugerð og segja: Réttlætið verður því miður að bíða að þessu sinni. Tölvan segir nei.“

Hún sagði þetta ekki snúast um einstaka stjórnmálamenn, eða að kerfin væru slæm í eðli sínu. Frumskyldur stjórnmálamanna væru hins vegar við fólkið og leikreglurnar ættu að þjóna fólkinu og tryggja réttlæti og mannúð fyrir alla.

Katrín viðraði áhyggjur sínar af því að þrátt fyrir efnahagslegan uppgang vantaði svolítið upp á sameiginlegan skilning á því sem fælist í samfélagi. „Ég hef áhyggjur af því að of margir séu beðnir um að bíða eftir réttlætinu.“

Hún sagði stjórnvöld á Íslandi verða að treysta sér til að útrýma fátækt, vera reiðubúin að bregðast við því að tíu ríkustu prósentin hér á landi hættu þrjá fjórðu alls auðs í landinu.

Misskipting vegna pólitískra ákvarðana

„Vaxandi misskipting auðsins sprettur beinlínis af pólitískum ákvörðunum. Sem hingað til hafa verið þær að ekki megi skattleggja auðinn, ekki megi skattleggja fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk, ekki megi setja sérstakt hátekjuþrep á verulega háar tekjur eins og þær sem skila sér í kaupaukagreiðslum sem margir þingmenn flytja vandlætingarræður um en heykjast svo á að taka á í gegnum skattkerfið.“

Hún sagði sama hægt að segja um bótakerfin því vaxtabætur og barnabætur nýttust æ færri. Þar að baki væru ákvarðanir sem miðuðu ekki að því að draga úr misskiptingu, heldur þvert á móti. „Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.“

Katrín sagði jafnframt að byggja þyrfti upp menntakerfið og félagslega rekið heilbrigðiskerfi, þar sem Landspítalinn stæði undir hlutverki sínu og að heilsugæslan fengi nægilegt fjármagn. Síðast en ekki síst þyrftu stjórnvöld að standa með brotaþolum kynferðisbrota, ekki síst börnum. „Um það hefur pólitísk umræða sumarsins snúist og hún er mikilvæg fyrir samfélagið allt. Þetta verkefni þarf að nálgast af alvöru, með fræðslu, breyttri framkvæmd og endurbótum á löggjöf. Um það verðum við að ná saman.“

Katrín lauk ræðu sinni á því að minnast á umræðu um áhrifaleysi þingmanna og ófjölskylduvænan vinnutíma, sem skapast hefði í sumar. „Ég verð að segja það að þingmenn eru að mínu viti forréttindastétt, fólk sem nýtur þeirra forréttinda að vera kosið hingað inn af almenningi í landinu, og fær fyrir það ágætlega greitt, til að sinna því hlutverki að tryggja almannahagsmuni. Og það hlutverk eigum við að taka alvarlega.“ Hún sagði það hlutverk þingmanna að vernda það raunverulega ríkidæmi sem fólkið í landinu ætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert