„Austurland, Vestfirðir og Suðurnes verði sterk sveitarfélög“

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur hættir til að reikna með því að núverandi ástand vari um alla framtíð, þó að reynslan kenni okkur að það er einmitt ekki svo,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, í ræðu sinni í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

„Hvernig verður staðan eftir 30 ár eða 50 ár? Vandi er um slíkt að spá, og það eina sem við vitum er að slíkir spádómar verða í mörgum atriðum rangir. Sem stjórnmálamenn eigum við samt ekki að vera rög við að velta framtíðinni fyrir okkur,“ sagði Benedikt.

Ber að þakka fyrir EES að mati ráðherra

Vakti hann einkum máls á Evrópusambandinu og þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu.

„Fyrir réttum 25 árum ræddu alþingismenn það hvort Ísland ætti að slást í för með öðrum ríkjum Vestur-Evrópu með inngöngu á Evrópska efnahagssvæðið. Sitt sýndist hverjum, en nú eru flestir sammála um að það við eigum þeim framsýnu alþingismönnum mikið að þakka sem samþykktu aðild Íslands að fjórfrelsinu og sameiginlegri löggjöf Evrópusambandsins á flestum sviðum,“ sagði Benedikt.

Ali ekki á hatri og fordómum

„Við Íslendingar höfum að mörgu leyti verið frjálslynd og opin, þó svo að það hafi ekki alltaf verið svo. Fyrir aldarþriðjungi hrökkluðust landar okkar úr landi vegna kynhneigðar sem var fordæmd. Nú flykkist stór hluti þjóðarinnar á vettvang þegar hinsegin fólk heldur sína gleðigöngu og allir gleðjast með,“ sagði Benedikt.

Þá fagnaði Benedikt því að hér á landi hafi ekki skotið upp kollinum stjórnmálaflokkar sem ali á hatri og fordómum líkt og gerst hafi í mörgum öðrum löndum. „Við Íslendingar höfum að mestu verið laus við slíka hópa og þeir hafa enn sem komið er ekki náð neinni fótfestu. En þegar við lítum til Bandaríkjanna, kyndilbera lýðræðisins í heiminum stærstan hluta 20. aldarinnar, þá sjáum við hvað hefur gerst og það gæti líka gerst hér.“

Sér fyrir sér sameiningu sveitafélaga

Vék Benedikt næst máli sínu að sveitastjórnarmálum. Sveitarfélög væru nú yfir 70 talsins hér á landi, sum þeirra agnarsmá, sem hafi sömu skyldur og höfuðborgin og önnur stærri sveitarfélög.

„Við hljótum að sjá miklu stærri heildir verði að verða að veruleika. Ég sé fyrir mér að Austurland, Vestfirðir og Suðurnes verði sterk sveitarfélög þar sem horft verði á hagsmuni allra íbúa við stjórnun,“ sagði Benedikt.

Kostir og gallar tækninnar

„Við keppumst við að koma í veg fyrir annað hrun, en næsta bankakreppa verður eflaust ekki eins og sú síðasta,“ sagði þá Benedikt er hann vék máli sínu að áhrifum tækninnar sem nú gæti í auknum mæli.

„Tæknin getur hjálpað okkur, en hún getur líka steypt okkur í glötun. Veikleikinn verður alltaf mannlegi þátturinn þar sem freistingar eru margar og ágirnd þeirra sem eiga miklu meira en nóg er taumlaus. Hér megum við í þessum sal ekki sofna á verðinum,“ sagði hann.

Ítrekaði Benedikt jafnframt mikilvægi þess að Íslendingar leggi sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar sem meðal annars megi stuðla að með minni notkun mengandi orkugjafa. „Við megum ekki hugsa um skammtímahagsmuni og þaðan af síður megum við stinga höfðinu í sandinn og afneita vísindunum sem lýsa loftslagsbreytingunum og orsökum þeirra.“

Skattgreiðendur viti í hvað peningarnir fara

Vakti Benedikt jafnframt athygli á vefnum opnirreikningar.is sem opnaði í vikunni þar sem birtir hafa verið reikningar ráðuneytanna. „Með því að fara inn á þann vef geta allir sem vilja séð í hvað skattpeningarnir fara. Einhverjum stjórnmálamönnum kann að þykja þetta óþægilegt, en skattgreiðendur eiga heimtingu á að vita í hvað peningar þeirra fara,“ sagði Benedikt.

„Fegurðin er í frelsinu,“ sagði Benedikt er hann varpaði ljósi á stefnu flokks síns og þau áhersuatriði sem hann vill ná fram í ríkisstjórn. Mörgum kunni að finnast hægt hafa gengið í þeim efnum og hvatti Benedikt til þolinmæð.

„Hin efnahagslega viðreisn hefur gengið vel eftir hrun og þar hafa stjórnmálamenn í mörgum flokkum lagt hönd á plóg. Samfélagslegu viðreisninni er ekki lokið, en hún tekst með heilindum, virðingu og gagnkvæmu trausti,“ sagði Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert