Bretar eyddu mest

Breskir ferðamenn eyddu að meðaltali 170 þúsund krónum á hvern …
Breskir ferðamenn eyddu að meðaltali 170 þúsund krónum á hvern ferðamann í ágúst eða 40 þúsund krónum meira en Norðmenn sem eru næstir á listanum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bretar skera sig úr í erlendri kortaveltu sem vekur sérstaka athygli í ljósi þess hve veikt breska pundið er gagnvart krónunni. Ólíkt meðal-ferðamanninum sækja fleiri Bretar Ísland heim að vetri til en sumri og heldur færri breskir ferðamenn hafa komið hingað til lands í sumar samanborið við 2016. Þetta kemur fram í greiningu Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þar kemur jafnframt fram að erfitt sé að slá því föstu hvað valdi hærri greiðslukortaveltu Breta nú en áður en geta má sér til um að hluti ástæðunnar sú að fleiri breskir ferðamenn komi nú hingað til lands á eigin vegum en ekki fyrir tilstuðlan ferðaskrifstofa í heimalandinu. Þá kann einnig að vera að í ljósi óhagstæðs gengis treysti eingöngu efnuðustu bresku ferðamennirnir sér í Íslandsferð en þeir sem minna hafa á milli handanna velji aðra áfangastaði. 

Frétt mbl.is: Meðal­neysla á hvern er­lend­an ferðamann 10% minni í ág­úst

Hver ferðamaður eyddi 115 þúsund krónum í ágúst

Að meðaltali greiddi hver ferðamaður, miðað við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, að jafnaði 115 þúsund krónum með greiðslukorti sínu sem er 5,7% minna en í júlí og 10% lægri upphæð en í ágúst 2016. 

Ferðamenn frá Bretlandi greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í júlí eða 170 þúsund krónur á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 130 þúsund krónur á hvern ferðamann en athygli vekur að ferðamenn frá öðrum löndum en þeim sem talin eru greiddu 146 þúsund krónur á hvern mann í ágúst. 

Velta eftir þjóðerni ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklu mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert