Engar yfirhylmingar hjá nefndinni

Haraldi flýgur í hug að einhverjum finnist nú allt ganga …
Haraldi flýgur í hug að einhverjum finnist nú allt ganga upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Manni flýgur í hug að nú skuli einhver halda að allt virðist vera að ganga upp, að við höfum staðið í óskaplegum yfirhylmingum, sem er alls ekki raunin,“ segir Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og einn fulltrúi flokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Vísar hann þar til þeirrar umræðu sem skapaðist í dag eftir að í ljós kom að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, veitti Hjalta Sigurjóni Haukssyni, dæmdum barnaníðingi meðmæli vegna umsóknar þess síðarnefnda um uppreist æru.

Aðspurður segist Haraldur fyrst heyrt af því fyrr en í dag að faðir Bjarna hefði veitt Hjalta meðmæli, en hann segir mestu máli skipti að rétt hafi verið staðið að allri upplýsingagjöf í málum tengdum uppreist æru.

„Mér finnst mestu máli skipta að við höfum staðið með öllum hætti rétt að hverju skrefi fyrir sig. Dómsmálaráðherra hefur sagt að endurskoða eigi lögin. Hún vildi ekki láta gögnin frá sér nema hafa til þess skýrar heimildir. Það hefði verið mjög alvarlegt að klúðra því. Við höfum reynt að gæta þess að það séu réttar ákvarðanir teknar í allri nálgun á þetta mál,“ segir Haraldur og ítrekar að ekki hafi verið neinar yfirhylmingar í gangi af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Benedikt Sveinsson veitti Hjalta meðmæli vegna umsóknar um uppreist æru.
Benedikt Sveinsson veitti Hjalta meðmæli vegna umsóknar um uppreist æru.

„Þetta eru ömurleg og hræðileg mál sem þarna eru þarna undir. Maður getur ekki ímyndað sér kvalirnar sem eru þarna á bak við þau,“ segir hann jafnframt.

Aðspurður hvort hann telji að Sjálfstæðisflokkurinn muni bíða hnekki vegna þessa máls, svarar hann: „Ég get ekki séð það núna, en ég trúi því að menn sjái aðalatriðin í þessu máli.“

Nefndin fékk aðeins gögn Roberts Downey 

Mál Hjalta er sambærilegt máli Roberts Downey, sem einnig er dæmdur barnaníðingur. Þeir fengu báðir uppreist æru á síðasta ári, en mál Hjalta komst í umræðuna kjölfar umræðu um mál Roberts.

Fulltrúar meirihlutans, þar á meðal Haraldur, gengu allir af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í ágúst þegar kynna átti gögn í máli Robers Downey, meðal annars meðmælabréf vegna umsóknar hans um uppreist æru. Skýringarnar voru þær að þessar upplýsingar hefðu ekki vægi í þeirri vinnu sem nefndin var að inna af hendi.

Hávær krafa var af hálfu þeirra sem Robert braut á, og fjölmargra annarra, að gögn í máli hans yrðu gerð opinber, og var það loks gert að undangengum úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar stúlkunnar sem Robert braut gegn sagði í samtali við mbl.is í gær að hann skildi ekki þessa leyndarhyggju, en hann sagði þó gott að fá loks upplýsingarnar.

Vert er þó að taka fram að þau gögn sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk í hendur snéru eingöngu að máli Roberts. Gögn í máli Hjalta voru ekki til skoðunar hjá nefndinni. Hins vegar fékk Sigríður Andersen dómsmálaráðherra upplýsingar um það í lok júlí, í óspurðum fréttum, að faðir forsætisráðherra væri einn þeirra sem gefið hefði þeim síðarnefnda meðmæli þegar hann sótti um uppreist æru. Hún lét í kjölfarið forsætisráðherra vita. Á næstunni verða gögn allra þeirra sem hafa fengið uppreist æru aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins, eftir að ákveðnar persónuupplýsingar hafa verið máðar út.

Ekki í takti við réttlætiskennd þjóðarinnar 

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er einnig fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í samtali við mbl.is segist hún fyrst hafa heyrt af meðmælum föður forsætisráðherra í dag. Hún segir umræðuna í dag undirstrika hvað lögin um uppreist æru eru úrelt.

Hildur segir umræðuna undirstrika að lögin um uppreist æru séu …
Hildur segir umræðuna undirstrika að lögin um uppreist æru séu löngu úrelt. mbl.is/Golli

„Þessi umræða í dag ber þess merki að vera enn eitt dæmið um hvað lögin um uppreist æru eru úrelt og augljóslega ekki í neinum takti við réttlætiskennd þjóðarinnar, þá ekki síst í því sem snýr að þolendum kynferðisbrota - eðlilega. Það er því auðvitað fagnaðarefni að ráðherra ætli að breyta þessum lögum, og það eru allir sammála um það,“ segir Hildur.

Hún segir að af því að lögin séu komin svo langt frá réttlætiskennd þjóðarinnar þá sé öllu sem þeim viðkemur mætt með tortryggni, jafnvel þó engin ástæða sé til. „Það verður að hafa í huga að það er ekkert í ferli þessara mála sem bendir til annars en að fyllilega hafi verið farið eftir lögum og reglum. Þó að við vitum núna að þessi lög, reglur og stjórnsýsluvenjur eru komnar þetta langt frá þjóðarviljanum að þá voru engar reglur brotnar og það er mikilvægt að halda því til haga fyrir framhaldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert