Frumvarp um Mary og Hanyie lagt fram

Frumvarp sem veita á Mary Lucky, Hanyie Maleki og fjölskyldum …
Frumvarp sem veita á Mary Lucky, Hanyie Maleki og fjölskyldum þeirra ríkisborgararétt hefur verið lagt fram á Alþingi. mbl.is/Samsett mynd

Frumvarp sem veita á fimm flóttamönnum ríkisborgararétt hér á landi hefur verið lagt fram á Alþingi. Í frumvarpinu er lagt til að Hanyie Maleki og Mary Lucky fái íslenskan ríkisborgararétt ásamt fjölskyldum sínum.

Mál Hanyie og Mary eru aðskilin en hafa verið umfangsmikil í umfjöllun fjölmiðla upp á síðkastið.

Frétt mbl.is: Brott­vís­un frestað í máli Han­iye

Frétt mbl.is: Furðar sig á aðgerðarleysi stjórn­valda

Flutningsmenn frumvarpsins eru 23 talsins og samanstanda af öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar nema Framsóknarflokknum.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu leggja flutningsmenn þess til að stúlkurnar tvær fái íslenskan ríkisborgararétt, með vísan til mannúðarsjónarmiða þar sem þær skorti öruggar aðstæður og vernd.

Einnig er vísað til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í greinargerðinni. Þar segir meðal annars að aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgt foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um barnasáttmálanum.

Þá vonast flutningsmenn frumvarpsins til þess að með frumvarpinu verði stjórnvöldum send skýr skilaboð „um að löggjafinn ætlist til þess að réttindi barna séu virt í hvívetna við töku stjórnvaldsákvarðana þar sem hagsmunir þeirra eru í húfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert