„Hvenær er nóg nóg?“

Ferðamenn í Hljómskálagarðinum.
Ferðamenn í Hljómskálagarðinum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) gagnrýna harðlega áform fjármálaráðherra um skatthækkun á greinina sem kemur fram í nýju fjárlagafrumvarpi. Þannig segja samtökin að gert sé ráð fyrir því að álögur á greinina í formi skatta og gjalda hækki um fimm milljarða á næsta ár á meðan ríkissjóður verji aðeins 2,3 milljörðum beint í málaflokkinn.

Neikvæð áhrif á gæði, öryggi og dreifingu ferðamanna

Í ályktun frá samtökunum kemur fram að með því að afnema afslátt sem bílaleigu hafa haft á vörugjöldum muni gjöld þeirra fyrirtækja hækka um þrjá milljarða. Segja samtökin að ætlaðar breytingar muni hafa „neikvæð áhrif þvert á sameiginlega stefnu stjórnvalda og ferðaþjónustunnar um aukin gæði, öryggi og dreifingu ferðamanna um landið.“

Þá er sjónunum beint að gistináttagjaldi, en gjaldið var hækkað úr 100 krónum í 300 krónur. Segja samtökin að með þessu versni versnar enn samkeppnishæfni hótela gagnvart ólöglegri íbúðargistingu sem hafi vaxið að undanförnu og „hvorki skilar sköttum né öðrum gjöldum til ríkissjóðs.“ Þessi hækkun muni valda um eins milljarðar hækkun gjalda fyrir gistiþjónustuna, en á sama tíma segja samtökin að ríkið verði af tveimur milljörðum árlega þar sem ekki hefur tekist að tryggja skattskil þeirra sem starfa í því sem kallað hefur verið skuggahagkerfi.

SAF gagnrýna jafnframt hækkun á eldsneytissköttum sem þau segja að verði að hluta sóttur í ferðaþjónustufyrirtækin. „Þessar auknu álögur munu því sannarlega hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og takmarka dreifingu ferðamanna um landið.“

Auknar tekjur en draga úr framlögum

Þá er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu að auknar tekjur ríkissjóðs af bílastæðagjöldum í þjóðgörðum nemi um 150 milljónum á næsta ári. Segja samtökin skjóta skökku við að á sama tíma séu framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs lækkun.

Það eru þó ekki bara hækkanir í núverandi fjárlagafrumvarpi sem samtökin hafa áhyggjur af. Framundan sé enn meiri hækkun gjalda. „Þrátt fyrir fyrirhugaða hækkun á VSK á ferðaþjónustu að upphæð 18 milljarða króna árlega frá árinu 2019, og eiginlegar auknar álögur á ferðaþjónustuna að upphæð tæpir 5 milljarðar króna frá og með næsta ári eru stjórnvöld einnig með á prjónunum ýmiskonar gjaldtöku á greinina líkt og aðstöðugjöld eins og enn frekari bílastæðagjöld og hafnargjöld ásamt því að þjóðgarðarnir horfa til sérstakra leyfisgjalda. Hvenær er nóg nóg?“ segir í ályktuninni.

Krefjast þess að VSK-áform verði endurskoðuð

Krefjast samtökin þess að stjórnvöld endurskoði áform sín um að setja ferðaþjónustuna í hæsta þrep virðisaukaskattsins í því ljósi að tryggja þurfi greininni samkeppnishæfni við erlenda markaði, líkt og hafi verið gert við aðra útflutningsgreinar.

Samtökin segja að þegar rýnt sé í frumvarpið komi fram að stjórnvöld segist hafa mikla trú á ferðaþjónustunni þegar komi að tekjuöflun, en þegar horft sé til uppbyggingar innviða sé ekki hægt að draga þær ályktanir að stjórnvöld hafi raunverulega trú á greininni. Þannig séu hlutfallslega litlum fjármunum varið í samgönguframkvæmdir sem séu lífæð ferðaþjónustunnar og grundvöllur þess að dreifa ferðamönnum um landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert