Meðalneysla á hvern erlendan ferðamann 10% minni í ágúst

Enn er vöxtur í flestum útgjaldaliðum en dregi hefur úr …
Enn er vöxtur í flestum útgjaldaliðum en dregi hefur úr vexti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vöxtur í fjölda ferðamanna í ágúst var mun meiri en vöxtur í erlendri kortaveltu þannig að hver ferðamaður ver um 10% lægri upphæðum með greiðslukortum til kaupa á vöru og þjónustu en fyrir ári síðan samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar. 

Erlend greiðslukortavelta hérlendis í ágúst síðastliðnum nam 32,8 milljörðum króna og var 6,2% meiri en í sama mánuði í fyrra. Mánuðurinn var aftur á móti metmánuður í komum ferðamanna um Leifsstöð en samkvæmt tölu Ferðamálastofu komu 284.124 ferðamenn um flugvöllinn í síðasta mánuði, 17,6% fleiri en í ágúst í fyrra og 4,5% fleiri en í júlí síðastliðnum. 

Yfir sumar mánuðina þrjá nam erlend greiðslukortavelta 93,2 milljörðum króna sem er 5,3% meira en yfir sumarmánuðina 2016. Töluvert hefur dregið úr þeim mikla vexti sem hefur verið í kortaveltu ferðamanna undanfarin ár þó að enn sé vöxtur í flestum útgjaldaliðum. Þannig var erlend kortavelta gistisataða í ágúst 7,4 milljarðar króna og jókst um 11,% frá ágúst í fyrra. Þá er enn aukning í kortaveltu vegna ýmissa skipulegra ferða eins og hvalaskoðun, gönguferðum og ferðum með leiðsögn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert