Kærðir fyrir að nota ekki bílbelti

mbl.is/Hjörtur

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði sjö ökumenn í gærkvöldi og nótt sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Tveir menn voru handteknir í bifreið við Grensásveg um hálfþrjúleytið í nótt.  Var ökumaðurinn grunaður um að aka bílnum undir áhrifum fíkniefna, en mennirnir eru auk þess grunaðir um bæði þjófnað og vörslu fíkniefna. Voru þeir vistaðir í fangageymslum lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Þá var einn ökumaður stöðvaður á Flókagötunni um hálfeittleytið. Sá hafði, auk þess að aka bíl undir áhrifum fíkniefna, ítrekað verið stöðvaður fyrir akstur þrátt fyrir að hafa aldrei öðlast ökuréttindi.

Loks var bifreið stöðvuð við Naustavör um hálftólfleytið í gærkvöldi. Ökumaður þess bíls er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, fyrir að aka bíl þrátt fyrir að hafa verið sviptur ökuréttindum, fyrir vörslu fíkniefna og fyrir að nota ekki bílbelti við akstur. Farþegi sem í bílnum var var einnig kærður fyrir að nota ekki bílbelti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert