Sagði ríkisstjórnina viðhalda fátækt

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Eggert

„Síðustu daga hafa ráðherrar þessarar ríkisstjórnar keppst við að segja landsmönnum hvað þeir eru að setja rosalega mikla peninga í kerfið. Við fyrstu sýn fjárlagafrumvarpsins virðist það ekki vera svo,” sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi.

Hún sagði að alltof víða sé sáralítið sett af nýjum peningum til að styrkja rekstur hins opinbera. Ekki hafi nóg verið sett í heilbrigðismálin, ekki síst geðheilbrigðismál.

Bjarkey sagði ríkisstjórnina viðhalda fátækt gagnvart stórum hluta fólks með fjárlagafrumvarpinu og að ungt fólk beri skarðan hlut frá borði, meðal annars vegna lægri barnabóta.

„Eina jákvæða ljósið í þessu gagnvart ungu fjölskyldufólki er stighækkandi fæðingarorlof,” sagði hún og hvatti fjármála- og efnahagsráðherra einnig til að athuga hvort hækkun á bensín-, olíu-, og áfengisgjaldi muni ekki hafa áhrif á skuldastöðu heimilanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert