Ívilnanir stangast ekki á við græna skatta

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir eðlilegt að umhverfisskattar haldist í …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir eðlilegt að umhverfisskattar haldist í hendur við losunarstefnu og ívilnanir. mbl.is/Eggert

Það er eðlilegt að kallað sé eftir mótvægisaðgerðum vegna hækkunar eldsneytis- og þungaskatt. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – Græns framboðs, það breytir því hins vegar ekki að stefna VG sé sú að umhverfisskattar séu æskilegir.

Bjarni Jóns­son, varaþingmaður Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs og sveit­ar­stjórn­ar­maður í Skagaf­irði, gerir skatta­hækk­an­ir í fjár­laga­frum­varpi rík­is­stjórn­ar­inn­ar að umfjöllunarefni á vefsíðu héraðsfréttablaðsins Feykis.

„Stór­hækk­un skatta á ol­í­ur, bens­ín og hækk­un þunga­skatts bitn­ar beint á því fólki sem þarf að sækja lengst þjón­ustu, hvort held­ur heilsu­gæslu, mennt­un, aðföng til heim­ils eða at­vinnu­rekst­urs. Þetta eru því bein­ir fjar­lægðaskatt­ar á íbúa lands­ins,“ segir Bjarni í grein sinni.

Umhverfisskattar haldist í hendur við losunarstefnu og ívilnanir

„Við vitum það alveg að fólk hefur áhyggjur af að þetta bitni mismunandi á landsbyggð og höfuðborg. Það er því ósköp eðlilegt að það sé kallað eftir mótvægisaðgerðum,“ segir Katrín er hún er spurð út í grein Bjarna. „Það breytir því hins vegar ekki að stefna flokksins er sú að umhverfisskattar séu æskilegir.“ 

Katrín segist enda hafa kallað eftir hækkun skatta haldist í hendur við samræmingu stefnu varðandi losun og hvaða ívilnanir eigi að veita því samhliða. Hér vanti til að mynda umhverfisvænni samgöngumáta. „Við höfum verið að benda á að hér vanti til dæmis allt fé í almenningssamgöngur og svo höfum við ítrekað kallað eftir því að ívilnanir vegna rafbíla verði framlengdar.“ Það hafi nú verið gert, sem sé af hinu góða.

Ekki króna farið í kolefnisjöfnun sauðfjárbúskapar

Kveðst hún telja að eining sé um að í svona aðgerðum þá sé eðlilegt að kalla eftir því að komið sé til móts við þá sem bera þyngri byrðarnar af þessu, sem í þessu tilfelli sé landsbyggðin og slíkt stangist ekki á við grunnstefnu flokksins.

„Um leið segi ég þó að við þurfum heildstæða áætlun um það hvernig við ætlum að verða kolefnishlutlaus og við erum að kalla eftir raunverulegum aðgerðum, ekki bara orðum í þeim efnum. Hluti af því hlýtur að vera græn skattlagning og síðan ívilnanir og stuðningur á öðrum sviðum til þess að ná þessum markmiði.“ Katrín kveðst m.a. hafa bent á að sér finnist skrýtið að vera að borga sauðfjárbændum fyrir að hætta, sem hafi svo sannarlega áhrif á landsbyggðina, en ekki hafi neinu fé verið varið í kolefnisjöfnun sauðfjárbúskapar.

„Þarf að horfa á þetta heildstætt og hafa öll þessi sjónarmið á lofti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert