„Förum brött inn í baráttuna“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef kosningar verða niðurstaðan þá förum við bara brött inn í þá baráttu og hlökkum til að takast á um okkar gildi. Ég er viss um að niðurstaðan úr því verður sú að mynduð verði í desember ríkisstjórn um félagslegan jöfnuð og velferð.“

Þetta segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is vegna blaðamannafundar Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í dag þar sem hann kallaði eftir því að nýjar þingkosningar færu fram í nóvember. „Ég held að þjóðin hafi áttað sig á því að það þarf að velja flokka sem leggja fram kosningaloforð sem eru fjármögnuð þannig að það sé hægt að treysta því að það sé hægt að standa við þau.“

Spurður hvaða stjórnmálaflokkar gætu verið í slíkri stjórn segir Logi ýmsa flokka á miðju og vinstrivæng íslenskra stjórnmála geta gert það. Spurður hvort Samfylkingin gæti starfað til að mynda með Flokki fólksins í slíkri stjórn segir hann:

„Það færi dálítið eftir því hvernig kosningaáherslur þeirra verða. Ég hef ekki séð þær þannig að ég get bara ekki svarað því. En við erum bandamenn Flokks fólksins þegar kemur að mikilvægi þess að berjast fyrir þá lægst launuðu og þá sem standa verst í samfélaginu. En mér finnst þau hafa talað dálítið glannalega um flóttamenn og hælisleitendur en við skulum bara sjá hvort það færi ekki bara að víkja af þeirra stefnuskrá.“

Spurður hvort betra væri að kjósa á einhverjum tíma frekar en öðrum segist Logi ekki telja það endilega. Hins vegar yrði að hafa í huga að Ísland væri stórt og dreifbýlt land og því lengra sem liði að vetri væri erfiðara fyrir frambjóðendur að komast um landsbyggðarkjördæmi.

Spurður áfram hvort eitthvað annað sé í stöðunni en kosningar segir hann að það verði að koma í ljós. „Maður veit það ekki. Það getur verið að eitthvað komi fram, eitthvað gerist. En ég held að þetta sé kannski líklegast í augnablikinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert