Viðreisn hefði líklega slitið samstarfinu í dag

Hanna Katrín hallast að því að Viðreisn hefði gert það …
Hanna Katrín hallast að því að Viðreisn hefði gert það sama og Björt framtíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miklar líkur eru á því að Viðreisn hefði tekið ákvörðun um að slíta stjórnarsamstarfinu í dag, ef Björt framtíð hefði ekki gert það í gær. Þetta segir Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, en blaðamaður mbl.is náði tali af henni eftir fund ráðgjafaráðs flokksins sem hófst klukkan fjögur í dag og lauk nú fyrir skömmu.

Strax í nótt sendi flokkurinn frá sér ályktun um að það eina í stöðunni væri að ganga til kosninga sem fyrst og var það ítrekað í sameiginlegri yfirlýsingu sem ráðgjafaráðið sendi frá sér eftir fundinn, en í ráðinu sitja þingmenn flokksins, stjórn hans og grasrótin.

„Okkar nálgun í upphafi var að við vildum ná til alls okkar fólks og fá ákveðnar upplýsingar upp á borðið. Hefði Björt framtíð ekki slitið stjórnarsamstarfinu á miðnætti og við ekki frétt það í fjölmiðlum, þá hefðum við strax um morguninn fengið þessa tvo ráðherra á fund með okkur til að fara yfir málin,“ segir Hanna Katrín og á þar við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Sigríði Andersen dómsmálaráðherra. En Sigríður upplýsti Bjarna um það í lok júlí að faðir hans hefði skrifað undir meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmda barnaníðing, þegar hann sóttist eftir uppreist æru á síðasta ári.

„Við hefðum kallað eftir upplýsingum, vegið þær og metið og niðurstaðan hefði mögulega orðið sú sama og Björt framtíð komst að kvöldið áður, eða einhver önnur. Miðað við það hvernig málið hefur þróast þá hallast ég orðið að því að niðurstaðan hefði orðið sú sama.“

Vinnubrögðin standast ekki kröfur Viðreisnar

Hanna Katrín segir vinnubrögð ráðherra Sjálfstæðisflokksins einfaldlega ekki standast þær kröfur sem Viðreisn gerir, hvorki þingmenn flokksins né baklandið, og sé ekki í anda þeirra starfshátta og gegnsæis sem flokkurinn vilji viðhalda.

„Við erum þeirrar skoðunar að það þurfi að upplýsa fólk um þessa atburðarrás. Þá er ég einfaldlega að meina þennan fund sem átti sér stað í sumar, þegar dómsmálaráðherra, á sama tíma og hún heldur því fram að um ákveðnar upplýsingar ríki trúnaður, segir sínum formanni frá hluta þeirra upplýsinga sem tengjast persónulegum högum hans fjölskyldu. Upplýsingar sem fela í sér, hvorki meira né minna, aðkomu að uppreist æru barnaníðings,“ segir hún og bætir við: „Við teljum líka mikilvægt að þetta mál sé uppi á borðum áður en gengið er til kosninga.“

Hún segir það einsýnt að núverandi formaður stjórnskipumar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Brynjar Níelsson, sé ekki rétti maðurinn til að leiða þá vinnu.

„Við viljum sýna ábyrgð, sem á okkur hvílir varðandi stjórn landsins, því það er viðbúið að það taki við ákveðið upplausnarástand. Við hlaupumst ekki undan merkjum. Að sama skapi er algjörlega einsýnt af okkar hálfu að núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra eru ekki meðal þeirra sem eiga að sýna þá ábyrgð að halda utan um stjórn landsins þar til kosið verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert