Meðferð ráðherra ekki í samræmi við lög

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

Stjórnsýslumeðferð Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, við skipun Landsréttardómara var ekki í samræmi við ákvæði laga um dómstóla frá árinu 2016. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað upp dóm sinn í dag í máli Ástráðs Haraldssonar gegn íslenska ríkinu. Ríkið er þó sýknað af kröfu hans.

Segir í dómnum að meðferð ráðherrans hafi heldur ekki verið í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, mat á hæfni umsækjenda og innbyrðis samanburð þeirra.

Ekki hægt að fullyrða hvort hæfustu hafi verið valdir

Í dómnum segir enn fremur að telja verði að meðferð ráðherrans á umsóknum um embætti dómara Landsréttar, og það mat sem hún hafi lagt á umsóknirnar, hafi „verið haldin slíkum annmörkum að ekki séu forsendur til að fullyrða hvort ráðherra hafi lagt til skipun 15 hæfustu umsækjendanna til Alþingis.“

Hins vegar er tekið fram að Ástráði tókst ekki að sýna fram á „að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt ef meðferð málsins hefði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 50/2016 og þær reglur stjórnsýsluréttarins sem vísað er til [...]“

Ástráði hafi þá heldur ekki tekist að sýna fram á að hann hafi beðið fjárhagslegt tjón vegna ákvarðana ráðherra. Var ríkið því sýknað af kröfu hans.

Dómur héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert